Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 05. maí 2021 13:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Andri Hjörvar: Stærri sigur en margir kannski gera sér grein fyrir
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hulda Ósk skoraði jöfnunarmarkið
Hulda Ósk skoraði jöfnunarmarkið
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Karen María skoraði sigurmarkið
Karen María skoraði sigurmarkið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Upplifunin var mjög blendin, á tvennan máta. Við vorum alls ekki að spila vel, við áttum í basli með að tengja saman sendingar og finnar leiðir í gegnum þéttskipað lið ÍBV. ÍBV er með flottan hóp og erfitt lið að eiga við. Við vorum svolítið lengi í gang, hvort sem það var grasinu að kenna eða hvað það er. Við höfum ekki verið á grasi til þessa. Við höfðum orku í tanknum, börðumst eins og ljón í níutíu mínútur og uppskárum eftir því," sagði Andri Hjörvar Albertsson. þjálfari Þór/KA, við Fótbolta.net í dag.

Andri stýrði sínu liði til sigurs gegn ÍBV í opnunarleik Pepsi Max-deildarinnar í gær. ÍBV komst yfir í hálfleik en Þór/KA kom til baka í seinni hálfleik og vann útisigur.

Lestu um leikinn: ÍBV 1 - 2 Þór/KA

„Ég held að við höfum verið orkumeiri og ég sagði við stelpurnar í hálfleik að mín tilfinning væri sú að við værum búnar að venjast grasinu og fyrsti skjálftinn væri farinn úr okkur. Núna ættum við að ganga á lagið og hlaupa og berjast. Ég hafði það á tilfinningunni að við værum í betra formi en ÍBV og það hafi skapað þetta."

Töfrar Huldu
Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði jöfnunarmarkið og Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði svo sigurmarkið.

„Markið hjá Huldu voru bara hennar töfrar þannig lagað séð. Hún bjó þetta til upp á sínar eigin spýtur þannig lagað þó við höfum átt nokkrar sendingar á undan."

Leikurinn í fyrra rifjaðist upp
Hversu ljúft var að sjá annað markið?

„Mjög, mjög ljúft. Það kom upp í hugann á mér leikurinn í fyrra á þessum velli. Mér fannst við að mínu mati vera betri í þeim leik en í blálokin skoraði ÍBV sigurmarkið (1-0 sigur). Þetta var kærkomið og virkilega sætt að sjá boltann inni. Frábært að halda þetta svo út, frábær tilfinning."

Stærri en margir gera sér grein fyrir
Mikilvægt að ná í sigur í fyrsta leik upp á framhaldið að gera?

„Já, algjörlega. Fólk sem ég hef talað við í dag er sammála um að þessi sigur sé dálítið stærri en margir kannski gera sér grein fyrir. Það er alltaf gott að byrja mótið á sigri og tekur mestan skjálftan úr liðinu. Þór/KA hefur ekki sótt marga sigrana á Hásteinsvöll. Við erum gríðarlega stolt af þessum sigri."

Ekkert sem kom þannig á óvart
Var eitthvað í liði ÍBV eða leik liðsins sem kom þér á óvart?

„Nei, alls ekki. Ég hafði búist við einum erlendum leikmanni í viðbót í liðinu. Sú var ekki komin með leikheimild en annars bjóst ég bara við nýju liði. Við vissum af nokkrum þekktum nöfnum í liðinu en ekkert sem kom neitt á óvart. Ég vil hrósa þeim fyrir virkilega flottan leik og erfiðan leik. Þær eiga eftir að verða erfiðar við að eiga í sumar ef nafni minn nær að slípa þær til."

Færri komust með en vildu
Hvernig er staðan á leikmannahópnum þínum? Þú þurftir að gera skiptingu í fyrri hálfleik og svo voru fá nöfn á skýrslu.

„Já, Colleen þurfti að fara af velli eftir hálftíma og Sandra kom inn í hennar stað. Varðandi skýrsluna þá er þetta þannig að það eru reglur varðandi flugið í þennan leik og því komast ekki allar með sem vilja. Skýrslan verður fámennari og t.a.m. erum við ekki með eigin sjúkraþjálfara með okkur og einn af þjálfurunum var eftir heima."

„Við eigum stelpur inni, sumar eru í meiðslum og Arna Sif er erlendis. Svo er Agnes Birta að koma frá Bandaríkjunum."

„Colleen segir sjálf að þetta sé ekkert alvarlegt en hún á eftir að fá það metið frá sjúkraþjálfaranum okkar."


Móttökurnar til fyrirmyndar
Einhver lokaorð?

„Mig langar að þakka ÍBV og öllum sem voru í starfsliðinu fyrir gestrisnina og móttökurnar. Það var frábært að koma og fá svona móttökur. Lið mega taka það til sín að sýna það sama þegar önnur lið koma í heimsókn, frábærlega að öllu staðið," sagði Andri.
Athugasemdir
banner
banner
banner