Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 06. júní 2020 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Binni Skúla: Kolmunarvertíð á Fáskrúðsfirði og allir að vinna
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 11. sæti - Leiknir F.
Markvarðarþjálfarinn Amir Mehica og Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis.
Markvarðarþjálfarinn Amir Mehica og Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis.
Mynd: Daníel Þór Cekic
Leiknismenn unnu 1. deildina í fyrra.
Leiknismenn unnu 1. deildina í fyrra.
Mynd: Daníel Þór Cekic
Brynjar Skúlason er að fara inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Leiknis Fáskrúðsfjarðar. Á hans fyrsta tímabili kom liðið mjög á óvart með því að enda á toppi 2. deildar, eftir að hafa verið spáð 11. sæti fyrir tímabilið.

Aftur er Leiknismönnum spáð 11. sæti en núna í deildi fyrir ofan. „Er þetta ekki bara vanaleg spá fyrir lið sem ég er að þjálfa? Ég held það," sagði Brynjar við Fótbolta.net.

„Ég veit ekki sjálfur hvernig þetta verður hjá okkur í sumar, þannig að ég get ekki ætlast til að aðrir viti það. Við erum ekki búnir að spila mikið og það er mikið óljóst hjá okkur einhvern veginn. Við erum að fá útlendinga, það eru tveir að klára sóttkví á sunnudaginn og maður veit ekki hvernig þetta smellur allt saman."

„Vonandi verður þetta bara flott og allt gengur vel," segir Brynjar.

Leiknismenn hafa í vetur bætt við sig tveimur íslenskum leikmönnum og fjórum erlendum leikmönnum. Brynjar segist hafa reynt að fá fleiri erlenda leikmenn, en það hefur verið erfitt til dæmis vegna kórónuveirufaraldursins.

„Vonandi getum við bætt eitthvað við okkur. Ef menn eru góðir í fótbolta og vilja spila með góðu liði þá er alltaf opið hjá mér," segir Brynjar. „Það er mikil óvissa. Ég er búinn að heyra svör um að það sé erfitt að koma til landsins, það sé verið að snúa við leikmönnum á flugvöllum og alls konar vesen. Ég var búinn að semja við 2-3 mjög góða leikmenn sem hættu við að koma því 'mamma leyfði mér ekki að koma' eða 'kærastan leyfði mér ekki að koma'. Svona alls konar vitleysa."

Brynjar segist vera hættur að nenna að ganga á eftir íslenskum leikmönnum. „Yfirleitt vilja menn fá nóg af pening eða vera í KR eða Breiðabliks peysu upp í stúku að horfa upp á fótbolta."

„Við ætluðum að fá leikmenn fyrr og reyna að spila saman í liði í Lengjubikarnum. Það var því miður ekki hægt. Nú eru allir að prófa að taka undirbúningstímabilið sem ég er vanur að gera, þegar menn koma rétt fyrir tímabil."

Það var svipuð staða hjá Leikni í fyrra, en þá skipti æfingaferð miklu máli. „Við fórum í æfingaferð til Spánar og þá komu allir nema Garci, sóknarmaðurinn frá Spáni. Það var gott að geta tekið níu daga saman allir að æfa og stilla strengi," segir Brynjar, en sum félög á Íslandi hafa verið að taka æfingaferðir innanlands á síðustu vikum. „Það er ekki hægt hjá okkur, það er kolmunarvertíð á Fáskrúðsfirði og allir að vinna. Það er bara iðnaðurinn, ef menn eru ekki atvinnumenn í fótbolta verða þeir að afla tekna einhvern veginn öðruvísi."

Leiknir spilar heimaleiki sína í Fjarðabyggðarhöllinni, en þar er komið nýtt gervigras. „Þetta er bara gervigras, grænt. Við erum búnir að nota þetta í 2-3 vikur. Þetta er eins og þetta á að vera, ég vona það en ég er nú enginn gervigrassérfræðingur."

Leiknir hefur leik á útivelli gegn Fram þann 20. júní. „Það er óneitanlega mjög spennandi að þetta sé að byrja, maður vonar auðvitað að þetta gangi frábærlega," segir Brynjar, en hann hefur áhyggjur af samgöngumálum fyrir sumarið. Talað hefur verið um að flugferðum innanlands í sumar muni fækka. „Helst myndum við vilja fljúga, en áætlunarflugið hjá flugfélaginu er þannig að við myndum ekki alltaf ná að fara til dæmis til Reykjavíkur að morgni og fljúga heim samdægurs. Menn þurfa bara að finna sér kærustu í Reykjavík," sagði Brynjar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner