Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 06. september 2021 16:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þær tvær klárlega merki um leikmenn sem þurftu næstu áskorun
Icelandair
Guðrún Arnardóttir
Guðrún Arnardóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir gekk í sumar í raðir Þýskalandsmeistara Bayern Munchen frá Rosengård. Rosengård leitaði þá til Guðrúnar Arnardóttur hjá Djurgården til að fylla í skarð Glódísar.

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag og var spurður út í þessi skref hjá miðvörðunum sem báðar eru í landsliðshópnum fyrir komandi verkefni.

Er þetta klárt skref upp á við hjá þeim báðum?

„Jú, þær taka í raun og veru næsta skref á sínum ferli. Glódís er búin að standa sig gríðarlega vel í Svíþjóð og kannski kominn tími á að hún taki næsta skref. Vonandi fær hún að spila reglulega og aðeins meira en hún gerir akkúrat í dag, það tekur kannski smá tíma fyrir hana að komast inn í þetta," sagði Steini.

„Guðrún hefur gengið beint inn í Rosengård liðið og staðið sig virkilega vel þannig hennar skref var bara virkilega gott. Guðrún er búin að spila vel í Svíþjóð undanfarin ár og það sýnir sig í því, þegar Rosengård fær hana, að Guðrún er greinilega að vekja athygli þarna úti fyrir góða spilamennsku."

„Maður vonast bara til þess að þeir leikmenn sem fari erlendis fái leiki, fái mínútur og spili reglulega. Það gerir þær bara betri og í framhaldinu taka alltaf einhver skref ef þær eru að standa sig vel. Þá þurfa þær kannski næstu áskorun og þær tvær eru klárlega merki um það,"
sagði Steini.

Glódís Perla hafði verið hjá Rosengård frá árinu 2017 en hún hélt í atvinnumennsku árið 2015 eftir þrjú tímabil með Stjörnunni. Þá gekk hún í raðir Eskilstuna. Glódís er 26 ára gömul og á að baki 93 landsleiki.

Guðrún er líka 26 ára og fór til Djurgården árið 2018 eftir sjö tímabil með Breiðabliki. Hún á að baki ellefu landsleiki.
Athugasemdir
banner
banner