Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 06. desember 2021 15:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sjokk að heyra ummæli Ásgeirs Barkar - Ósáttur við fjölmiðlamenn
Óli aðeins stífur.
Óli aðeins stífur.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ásgeir Börkur og Ólafur Ingi í bakgrunni.
Ásgeir Börkur og Ólafur Ingi í bakgrunni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Ingi með fyrirliðabandið.
Ólafur Ingi með fyrirliðabandið.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Helgi Sigurðsson var þjálfari Fylkis árið 2018.
Helgi Sigurðsson var þjálfari Fylkis árið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Börkur er mættur aftur í Árbæinn eftir þrjú ár í HK.
Börkur er mættur aftur í Árbæinn eftir þrjú ár í HK.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Bar fyrirliðabandið fyrri hluta tímabilsins.
Bar fyrirliðabandið fyrri hluta tímabilsins.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ólafur Ingi spilaði á HM og gekk svo í raðir Fylkis.
Ólafur Ingi spilaði á HM og gekk svo í raðir Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er búinn að tala við Börk, hringdi í hann og ræddi þetta aðeins við hann. Ég vil ekki ræða mikið hvað fór okkar á milli en ég held að þetta hafi verið tilfinning hjá honum frekar en eitthvað sem gerðist," sagði Ólafur Ingi Skúlason, fyrrum leikmaður Fylkis, við Fótbolta.net í dag.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson ræddi við Mána Pétursson í hlaðvarpsþættinum Enn einn fótboltaþátturinn í síðustu viku.

Þar sagði Ásgeir Börkur frá viðskilnaði sínum við Fylki á sínum tíma og upplifði hlutina eins og verið væri að ýta honum til hliðar.

„Þetta snérist fyrst og fremst um „disrespect". Ég er alinn þannig upp að maður á að standa fast á sínu, burtséð frá hverjar aðstæðurnar eru. Ég upplifði það þannig, þetta ár sem ég fór frá félaginu, að það væri verið að ýta mér til hliðar og það var engin virðing borin fyrir því sem ég hafði gert fyrir klúbbinn síðan ég var fjögurra ára. Þetta var frá mörgum, bæði frá þjálfaranum [Helga Sigurðssyni], manninum sem ég lét fá fyrirliðabandið þegar hann kom aftur heim [úr atvinnumennsku, Ólafi Inga Skúlasyni] og fólki í kringum klúbbinn sem ég taldi vini mína og átti í daglegum samskiptum við," sagði Ásgeir Börkur.

Sjokk að heyra þessi sérstöku ummæli
Fótbolti.net heyrði í þeim Ólafi Inga og Helga Sigurðssyni í dag og fékk þeirra hlið á þessu máli.

„Ég hringdi í menn og spurði út í það þegar hann fór því ég hafði ekkert með að gera. Mér skilst að hann hafi ákveðið það sjálfur að hann vildi fara og mér skilst að Fylkir hafi gert allt sem félagið gat til að allt yrði gert fyrir hann sem hann bað um. Mér heyrist á öllum að þetta hafi verið algjörlega hans ákvörðun. Þetta var sjokk að heyra þetta, mér fannst þetta sérstök ummæli. Hann nefndi ekki neinn á nafn en gaf til kynna hverjir þetta væru," sagði Óli.

Finnst hann láta það koma þannig út
„Ég ræddi það við Börk og það var alveg á hreinu að ég var ekki að falast eftir einhverju fyrirliðabandi þegar ég kom. Hann vildi að ég tæki það og ég svaraði honum nei fyrst, sagði honum að hann ætti bara að halda því. En hann vildi meina að það væri betra fyrir hópinn og á endanum þá varð það þannig að ég fékk bandið frá honum. Það var ekki þannig að ég væri ýta á eftir því þótt mér finnst hann láta það koma þannig út í þessum hlaðvarpsþætti."

„Ég átti ekki nema góð samskipti við Börk þegar hann var leikmaður hjá Fylki og eftir það þegar ég hitti hann á förnum vegi. Þess vegna kom mér þetta mjög á óvart."


Ýmsir fjölmiðlar búnir að mála upp ansi skrautlegar fyrirsagnir
Óli var ánægður að fá símtalið. „Það eru ýmsir fjölmiðlar búnir að mála upp ansi skrautlegar fyrirsagnir varðandi þetta. Það var ekki beðið Börk um útskýringar eða rökstuðning á sínu máli. Þá var ekki heldur heyrt í okkur sem hann ræðir um. Mér finnst það ekki góð blaðamennska ef maður leyfir svona að liggja án þess að hafa samband við viðmælanda eða þá sem hann talar um. Ég þakka því fyrir símtalið."

Fyrirsagnir fjölmiðla:
Ásgeir Börkur upplifði óvirðingu í Árbænum og nafngreinir Helga og Ólaf Inga – „Fuck it, ég stóð á mínu.“ (433.is)
Snillingar sem héldu að ég væri að njósna (mbl.is)
„Upplifði það þannig að það væri verið að ýta mér til hliðar" (fotbolti.net)
Einn þeirra sem hrakti hann úr Fylki var sá sem hann leyfði að fá fyrirliðabandið (Vísir)

Viðtalið við Óla er þó ekki lokið, hann hélt áfram: „Þetta er hádramatíserað með alls konar fyrirsögnum og slíku. Ég rædd við Börk og það er allt í góðu okkar á milli. Þetta er kannski upplifun sem honum fannst vera þótt það séu engin rök fyrir því á nokkurn átt. Maður getur ekki verið að gera lítið úr tilfinningum fólks þannig ef það var þannig sem honum leið þá ber maður virðingu fyrir því."

Skýtur á fjölmiðlamenn
Óli talaði um að þetta hefði verið sjokk og hafi komið honum á óvart. Varstu reiður að heyra þetta?

„Ég var svo sem ekkert reiður, ég veit að það er ekkert til í þessu. Það er pirrandi að menn fari þessa leið til að tala um atburði sem áttu sér stað fyrir mörgum árum. Orð bera ábyrgð og það er hans að rökstyðja hvað það var sem menn ættu að hafa gert á hans kostnað. Ég er svo sem engu nær eftir mitt samtal við hann en það er hans að rökstyðja það við blaðamenn ef hann hefur áhuga á því."

„Pirringurinn er meira í garð fyrirsagna og það sé verið að búa til einhver klikk og svo er engin vinna á bakvið það. Það er svo ekki fyrr en núna sem ég er beðinn um að kommentera á þetta. Þetta er látið liggja og fólk fær að smjatta á þessu eins og það vill. Þetta verður mál úr engu í raun og veru. Það er það sem fer í taugarnar á mér, þetta er ekki alveg nógu vel unnið finnst mér. Ef maður ætlar að skrifa úr hlaðvarpsþætti og menn vilja búa til frétt úr svona efni þá er kannski ágætt að setja sig í þær stellingar, vera smá blaðamaður og kafa ofan í málið ef maður ætlar að skrifa um það á annað borð."


Kom öllum í opna skjöldu
Ásgeir Börkur er aftur mættur í Fylki og samdi til tveggja ára. Hvað finnst Óla um að leikmaður Fylkis sé að segja frá þessu á þessum tímapunkti?

„Mér fannst skrítið að hann væri að tala um þetta á annað borð. Ég er búinn að heyra í mönnum sem voru við stjórnvölinn á þessum tíma og það eru allir jafn hissa. Ég veit að þetta kom fleirum á óvart heldur en mér. Auðvitað er tímapunkturinn skrítinn, ég hlustaði á viðtalið til að ganga úr skugga um hvort það hefði verið að taka allt úr samhengi. Þetta var aðeins skreytt."

„Eins og hann sagði þá hefur hann aldrei verið spurður að þessu og gerir þennan tíma upp svona. Það kom mér á óvart og kom held ég öllum í opna skjöldu. Það eru þrjú ár síðan hann fór og hann hefur átt mjög flott ár hjá HK. Maður hefði haldið að þetta væri eitthvað sem væri liðin tíð og eitthvað sem menn væru búnir að gera upp. En svo virðist ekki vera,"
sagði Ólafur Ingi.

Maður getur ekki rifist við hans tilfinningar
Helgi Sigurðsson vildi ekki mikið tjá sig um málið en þó aðeins.

„Það er leiðinlegt að hann upplifi þetta þannig. Það var ekki mín upplifun, alls ekki og langt í frá. Ég óska honum alls hins besta og ég vildi ekki að hann færi frá Fylki á sínum tíma. Ég bað aldrei um að hann ætti að fara, það var hann sem óskaði eftir því að fá að fara, allavega eins og mér var tjáð af Fylki. Það kom aldrei neitt frá mér og hann spilaði alla leiki undir minni stjórn. Ég gaf aftur á móti leyfi á það að hann fengi að fara eftir að hann bað um það," sagði Helgi.

„Hann var lykilmaður undir minni stjórn og spilaði alla leiki. Maður getur ekki rifist við hans tilfinningar og ef hann upplifir þetta svona þá er það mjög leiðinlegt," bætti Helgi við.

Bjóst við meiri virðingu í þessum ástæðum
Fótbolti.net heyrði einnig í Ásgeiri Berki í dag og spurði hann nánar út í þau ummæli.

„Þetta var, eins og ég hef sagt við fleiri en þig, þá var þetta mín upplifun af þessum aðstæðum. Rétt eða röng upplifun, ég veit það ekki. Svona upplifði ég þetta. Þetta eru fjögur ár síðan og ekkert meira um það að segja annað en að aðstæðurnar voru þannig að ég upplifði ákveðið virðingaleysi. Ég bjóst við meiri virðingu í þessum ástæðum. Ég upplifði þetta virðingaleysi og engu í raun við það að bæta," sagði Börkur.

Hefuru fengið sterk viðbrögð eftir þetta viðtal?

„Ég veit það ekki, jú jú, þið fjölmiðlamenn skrifið auðvitað það sem þið viljið skrifa og í lok dags er það þannig að fólk upplifir hlutina á mismunandi hátt. Á þessum tímapunkti upplifði ég hlutina svona."

Ætla ekki að sjá eftir hlutum sem ég upplifi
Sérðu eftir því að sagt þetta? „Nei, af hverju ætti ég að gera það?"

Verandi leikmaður Fylkis í dag, er þetta eitthvað sem er illa séð innan félagsins?

„Ég hef ekki fengið neitt, ekki ennþá allavega, fengið neitt eitthvað þess eðlis. Ég ætla ekki að sjá eftir hlutum sem ég upplifi. Upplifun fólks getur verið mismunandi og mín var á þennan veg og ég ætla ekkert að fara til baka með það."

Nefni aldrei hans nafn í tengslum við þetta
Geturu sagt hvað fór ykkar Ólafs Inga á milli þegar hann ræddi við þig?

„Ég held að ég hafi bara reynt að útskýra fyrir honum eftir bestu getu hvernig ég upplifði þetta. Það var í raun ekkert meira en það. Hann vildi meina að ég, sem ég skil alveg, hafi kannski eitthvað verið að sverta hans mannorð og segja að hann hafi verið ástæðan fyrir því að ég fór frá klúbbnum. En ef hann hlustar á viðtalið þá nefni ég aldrei hans nafn í tengslum við þetta."

En þú segir leikmaðurinn sem er að koma heim og þú lést fá fyrirliðabandið.

„Ég upplifði ákveðið „disrespect" frá þjálfaranum og leikmanninum sem kom heim og ég lét fá fyrirliðabandið. Í lok dags var það mín ákvörðun að láta hann fá fyrirliðabandið og í lok dags er það mín ákvörðun að fara frá Fylki. Í kringum þetta upplifði ég „disrespect" og það er mín upplifun," sagði Ásgeir Börkur.

Fótbolti.net hefur þá sent fyrirspurn á Fylki út í önnur ummæli Ásgeirs þar sem hann segir að hann hafi hætt sem þjálfari yngri flokka félagsins þar sem ákveðnir „snillingar" í kringum klúbbinn héldu að Ásgeir væri að njósna um meistaraflokk félagsins eins og Ásgeir orðaði það.
Athugasemdir
banner
banner