Belgíska liðið Leuven er komið áfram í 8-liða úrslit bikarsins eftir að hafa unnið Knokke eftir vítakeppni í kvöld. Jón Dagur Þorsteinsson skoraði í vítakeppninni og hjálpaði Leuven áfram.
Íslenski landsliðsmaðurinn spilaði allar 120 mínútur leiksins í kvöld og gerði vel.
Leuven komst í forystu á 24. mínútu en Knokke jafnaði undir lok hálfleiksins.
Ekkert var skorað í síðari hálfleik og ekki heldur í framlengingunni. Því þurfti vítakeppni til að knýja fram sigurvegara og þar hafði Leuven betur, 4-2.
Jón Dagur skoraði úr annarri vítaspyrnu Leuven, sem er nú komið áfram í 8-liða úrslit. Leuven verður eina Íslendingaliðið í 8-liða úrslitum en bæði Eupen og Patro Eisden duttu úr leik í síðustu umferð.
Athugasemdir