„Nei, ég get nú ekki sagt að ég sé sáttur við þessa spá. Við sýndum í fyrra að við erum með sterkt lið. Ég er allavega ekki sammála þessu orðum það þannig," sagði Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, í viðtali við Fótbolta.net í dag. Tilefni viðtalsins var spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina en KA er spáð 7. sætinu í sumar.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 7. sæti: KA
„Ég held að það sé næsti punktur hjá okkur, færa okkur aðeins upp í töflunni og ná Evrópusætinu. Við vorum nálægt því í fyrra og erum búnir að kynnast þeirri baráttu aðeins. Ég held að við höfum lært svolítið af þessu og þegar þú ert búinn að vera þarna uppi þá viltu ekki fara að keppast um eitthvað neðar."
Var mikið svekkelsi síðasta haust að hafa ekki klárað þetta?
„Já, ég myndi segja að þetta hafi verið mjög mikið svekkelsi. Við vorum það nálægt þessu og það vorum við sem klúðruðum þessu. Þetta var okkar að tapa og það var mikið svekkelsi."
Myndiru segja að þið væruð með öflugri hóp en í fyrra?
„Já, að mörgu leyti erum við með það. Við erum búnir að vera einu ári lengur saman, héldum okkar sterkustu mönnum og erum búnir að bæta aðeins við. Ég myndi segja að við værum með sterkara lið en í fyrra," sagði Ásgeir.
Viðtalið í heild má nálgast í spilaranum að ofan og á öllum hlaðvarpsveitum
Athugasemdir




