„Mér fannst þetta virkilega góður leikur af okkar hálfu. Förum kannski aðeins niður í seinni hálfleik en yfir heildina virkilega fagmannleg frammistaða hjá okkur.“ Var mat Hólmars Arnars Eyjólfssonar leikmanns Vals um leik Vals er liðið lagði KA að velli á Origo vellinum í dag 4-2.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 2 KA
Valsmenn höfðu mikla yfirburði á vellinum í fyrri hálfleik en heldur dró af þeim er líða fór á seinni hálfleikinn. Var eitthvað erfiðara að gíra sig inn í síðari hálfleikinn með gott forskot? En Valsmenn leiddu 3-0 er gengið var til hálfleiks.
„Nei, þeir fá þetta mark og við það fá þeir vítamínsprautu. En jú það fer mikil orka í þennan fyrri hálfleik en mér fannst við samt ekkert slakir í seinni hálfleik. Sköpuðum fullt af færum og hefðum hæglega getað skorað fleiri.“
Hlutskipti Vals og KA er ólíkt þegar horft er til leikjaálags er talsvert ólíkt. Á meðan að Valur féll úr bikarnum snemma þetta árið og tekur ekki þátt í Evrópukeppni er KA á leið í bikarúrslit og auk þess að fara að spila sinn fimmta leik í Evrópu næstkomandi fimmtudag. Er það að hjálpa Val að geta eingöngu einbeitt sér að deildinni?
„Ég held að það sé tvíþætt, bæði já og nei. Valur er nú þannig klúbbur að ef við værum í evrópukeppni þá værum við líklega með stærri hóp og við erum margir í liðinu sem hafa verið í svona leikjaálagi og kunnum á það. Það hefði hentað okkur fínt að vera líka í Evrópu en fyrst svona er þá reynum við að nota pásurnar vel. “
Sagði Hólmar en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir






















