Fótbolti.net greindi frá því í vikunni að Valur og KA hefðu boðið í Hrannar Snæ Magnússon leikmann Aftureldingar, en að báðum tilboðum hefði verið neitað.
Rætt var við Magnús Má Einarsson, þjálfara liðsins, eftir leikinn gegn Vestra í gær og var hann spurður út í Hrannar.
Rætt var við Magnús Má Einarsson, þjálfara liðsins, eftir leikinn gegn Vestra í gær og var hann spurður út í Hrannar.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 1 Vestri
„Engar líkur á að hann fari, búnir að hafna báðum tilboðunum og hann er á frábærum stað hjá okkur vil ég meina. Hann er búinn að taka stórkostlegum framförum síðan hann kom hingað, er í frábæru umhverfi og er að bæta sig í hverri einustu viku eins og aðrir leikmenn hérna."
„Það er eitt og hálft ár síðan hann kom hingað frá liði sem féll úr Lengjudeildinni það árið, þar var hann bakvörður, inn og út úr liðinu. Hann kemur hingað, spilar sem kantmaður og er búinn að vera vaxandi, staðið sig frábærlega. Það er af því að hann er að leggja á sig, en ég held það sé líka af því hann er í góðu umhverfi og líður vel hérna. Það er engin ástæða fyrir hann að horfa íslensk félög. Við viljum hafa umhverfið þannig að, og erum að komast á þann stað eftir mikla vinnu undanfarin ár, að leikmenn sem eru hjá okkur þurfi ekki að horfa á annað innanlands; geta spilað í Bestu deildinni og verið í stóru hlutverki. Ef hann á að horfa á eitthvað annað, þá er það erlendis, það er það eina sem hann á að horfa á."
„Það er búið að hafna báðum þessum tilboðum, meira að segja svolítið langt síðan, svolítið lengi að koma í fréttir, menn greinilega ekki jafn góðir að hlera eins og í gamla daga þegar ég var þarna," sagði gamli ritstjórinn léttur.
„Ég held að hann verði út tímabilið hjá okkur. Hann fiskar víti í dag og er alltaf ógnandi, vonandi verður hann hérna út tímabilið og svo lengur. Hann er búinn að standa sig frábærlega og er að bæta sig í hverri einustu viku. Ég held það sé engin ástæða fyrir hann að færa sig um set," sagði Maggi.
Athugasemdir