Man Utd hefur áhuga á að fá Baleba frá Brighton - Everton í viðræðum um Grealish - Newcastle vill McGinn
   fim 07. ágúst 2025 22:42
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Zrinjski: Óska Blikum til hamingju með að hafa forðast tap
Igor Stimac er þjálfari Zrinjski
Igor Stimac er þjálfari Zrinjski
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Igor Stimac, þjálfari Zrinjski Mostar, var ekkert sérstaklega heillaður af aðferðum Breiðabliks þegar liðin skildu jöfn, 1-1, í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í Bosníu í kvöld en hann ræddi við ArenaSport eftir leikinn.

Lestu um leikinn: Zrinjski Mostar 1 -  1 Breiðablik

Blikar fara með mjög hagstæð úrslit heim til Íslands og eiga nú raunverulegan möguleika á því að komast áfram í umspilið, en þeir lögðu gríðarlega orku í leikinn í kvöld.

Tobias Thomsen skoraði eina mark Blika, sem kom snemma leiks, en hann fiskaði vítaspyrnu er varnarmaður Zrinjski slengdi hendinni í Thomsen sem féll til jarðar. Höskuldur Gunnlaugsson tók spyrnuna sem markvörður Zrinjski varði, en dómarinn lét endurtaka spyrnuna þar sem markvörðurinn fór af línunni.

Tobias tók spyrnuna sem Goran Karacic varði í annað sinn og síðan aftur frákastið frá Tobias sem náði síðan að skalla hann í netið í þriðju tilraun.

Gestirnir jöfnuðu með marki úr vítaspyrnu í þeim síðari, en Stimac segir að það hafi reynst liðinu erfitt að brjóta Blika á bak aftur enda spiluðu þeir mjög varnarsinnað.

„Ég óskaði mér að við myndum vinna leikinn, hvernig sem við færum að því að gera það, en seinni hálfleikurinn er enn eftir af þessu einvígi. Þetta var erfiður leikur og það kom lítið á óvart að þeir hafi spilað 5-4-1 með lágvörn sem við vorum ekki nógu sniðugir eða hugmyndaríkir til þess að finna glufur á með löngum boltum.“

„Það var allt of lítil hreyfing og nokkur mistök. Stressið kemur og þú færð á þig mark. Þetta var alls ekki auðvelt fyrir strákana, en ég vil þakka stuðningsmönnunum fyrir að hvetja okkur áfram. Við vorum að leita að lausnum allan tímann og hvernig hægt væri að laga þetta. Þið sáuð að við breyttum mikið til í vörninni og komum inn með sóknarsinnaðri leikmenn,“
sagði Stimac.

Einnig talaði hann um leikskipulag Blika og hvernig þeir náðu að drepa leikinn með töfum.

„Andstæðingurinn var með alla leikmenn á bak við boltann, en þeir urðu þreyttir þegar það leið á leikinn. Á síðustu þrjátíu mínútunum reyndu þeir að tefja við hvert einasta tækifæri. Ég óska þeim til hamingju með að hafa forðast tap. Þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til ná í jákvæð úrslit,“ sagði Stimac enn fremur.

Seinni leikurinn er spilaður á Kópavogsvelli eftir viku og mun sigurvegarinn mæta annað hvort Utrecht eða Servette í umspili um sæti í deildarkeppni Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir
banner