Magni Fannberg Magnússon hefur verið fastráðinn sem yfirmaður íþróttamála hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping, en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Magni hefur skapað sér stórt nafn á Norðurlöndunum síðustu þrettán ár.
Hann kom að þjálfun fyrstu árin og stýrði meðal annars aðalliði Brommapojkarna en var ráðinn til norska félagsins Brann sem þróunarstjóri árið 2016.
Þremur árum síðar fór hann í sama starf hjá sænska stórliðinu AIK, þar sem hann hlaut meðal annars verðlaun fyrir metnaðarfullt starf í þjálfun og þróunarmálum
Árið 2022 gerðis hann yfirmaður knattspyrnumála hjá Start í Noregi en hætti rúmu einu og hálfi seinna vegna óróleika og klofning í stjórn félagsins.
Í sumar var hann ráðinn til sænska félagsins Norrköping eftir að Tony Martinsson, yfirmaður fótboltamála, lenti í bílslysi og þurfti að taka sér sjúkraleyfi, en nú hefur félagið staðfest fastráðningu Magna sem er í skýjunum með að geta verið áfram.
„Það er mikill heiður að fá þetta tilboð og svona mikilvæga stöðu hjá jafn fínu og rótgrónu félagi eins og Norrköping. Ég er núna að taka við keflinu af 'Tonna', sem er maður með stórt Norrköping-hjarta og er stór prófíll í sænskum fótbolta. Það færir mér mikið stolt,“ sagði Magni á heimasíðu félagsins.
Martinsson mun starfa áfram hjá Norrköping þar sem hann mun gegna ýmsum fótboltatengdum verkefnum, en þetta staðfesti Michael Sturehed, framkvæmdastjóri Norrköping, á heimasíðu félagsins.
Athugasemdir