Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 08. febrúar 2023 13:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Orri óskaði eftir að fá að fara - „Þegar ég spila mikið þá skora ég mikið"
Stundum þarf maður að taka eitt skref afturábak til að taka tvö skref fram á við.
Stundum þarf maður að taka eitt skref afturábak til að taka tvö skref fram á við.
Mynd: SönderjyskE
Á endanum fer þetta allt í reynslubankann
Á endanum fer þetta allt í reynslubankann
Mynd: Getty Images
Fyrir leik með U21 landsliðinu.
Fyrir leik með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri ræðir um U21 og A-landsliðið í viðtalinu.
Orri ræðir um U21 og A-landsliðið í viðtalinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Steinn Óskarsson var lánaður til SönderjyskE frá FC Kaupmannahöfn á Gluggadaginn. Hann er fenginn til að hjálpa SönderjyskE að tryggja sér aftur sæti í efstu deild.

„Mig langaði bara að spila, ég, þjálfarinn og PC (yfirmaður íþróttamála) vorum sammála um að ég þyrfti að spila meira. Það eru sóknarmenn á undan mér í röðinni hjá FCK og það leit ekki út fyrir mikinn spiltíma hjá mér. Því var ákveðið að best væri að taka skrefið aðeins niður á við til að fá fullt af leikjum, skora fullt af mörkum og ég er mjög spenntur fyrir því," sagði Orri í viðtali í síðustu viku.

Orri kom við sögu í níu leikjum með FCK fyrir áramót en í glugganum fékk liðið inn sóknarmanninn Jordan Larsson (sonur Henke Larsson) frá Schalke.

„Þeir fengu inn Jordan Larsson sem er hægri kantmaður/sóknarmaður, fengu hann á láni frá Schalke í hálft ár. Hann getur leyst stöðu fremsta manns. Þá var ég orðinn þriðja val í þá stöðu. Það eru sumir leikmenn sem hefðu verið glaðir að sitja á bekknum hjá þessu flotta félagi og lifa þægilegu lífi í Köben. Ég ákvað að ég þyrfti að taka skref út fyrir þægindarammann og henda mér til Haderslev og fá spiltíma."

Tilfinningin að þetta væri frábært val
Haderslev er í um þriggja tíma fjarlægð frá Kaupmannahöfn og flytur Orri þangað fram á sumar. Voru skiptin til SönderjyskE búin að vera lengi í kortunum áður en þau voru staðfest?

„Þetta gerðist mjög hratt. Ég frétti af áhuga daginn fyrir Gluggadag. Ég talaði við umboðsmanninn um möguleikana sem ég hafði. Okkur fannst þetta sá besti. Þjálfarinn minn hjá FCK, Neestrup, þekkir þjálfarann hjá SönderjyskE. Hann sagði að við myndum passa mjög vel saman. SönderjyskE er bara úrvalsdeildarklúbbur og miðað við stærð og umgjörð er þetta fullkomið skref fyrir mig á þessum tíma."

„Ég hafði einhvern veginn á tilfinningu að þetta væri frábært val. Þetta er fínasti bær, Atli Barkarson er hér og sagði mér frá hópnum, völlurinn hérna er mjög flottur og umgjörðin í kringum allt er mjög flott."

„Það var ég sem vildi fá lánið, vildi spila. Það var smá umræða hvort ég ætti að fara eða vera áfram. Á þessum tímapunkti fannst mér mikilvægast að fara og spila."


Eitt skref afturábak til að taka tvö skref áfram
Hvaða væntingar eru gerðar til tímans hjá SönderjyskE?

„Það eina sem kemur til greina er að fara upp, við erum með leikmannahópinn í það. Það eru sex stig upp í annað sætið. Möguleikarnir eru góðir, við eigum að fara upp."

Varstu ekkert hikandi að fara í B-deildina?

„Nei, stundum þarf maður að taka eitt skref afturábak til að taka tvö skref fram á við - eins og gamla góða klisjan segir. Mér leist bara mjög vel á þetta. Það er allt í lagi að taka eina deild niður ef maður fær að spila nóg, komast aftur í rútínuna að spila mikið. Þegar ég spila mikið þá skora ég mikið."

Þá hefði ég hlegið í andlitið á þér
Orri var spurður út í fyrri hluta tímabilsins hjá FCK. Áður en hann braut sér leið inn í aðalliðið þá raðaði hann inn mörkum hjá unglingaliðum FCK. Varstu ánægður með þau tækifæri sem þú fékkst hjá FCK fyrir áramót?

„Ef að þú hefðir sagt við mig í byrjun sumars að ég hefði spilað tíu leiki fyrir aðalliðið og tvisvar sinnum í Meistaradeildinni þá hefði ég hlegið í andlitið á þér. Ég var rosalega sáttur við allar mínúturnar sem ég fékk undir Neestrup, mjög þakklátur honum að hafa gefið mér svona mikið traust á tíma þar sem við þurftum að vinna leiki. Síðan var auðvitað geggjað að skora fyrsta markið fyrir aðalliðið."

„Það var líka smá niður á við, það voru lágpunktur og það voru hápunktar. Á endanum fer þetta allt í reynslubankann. Ég kem með ennþá meiri reynslu hingað og það hjálpar manni alltaf á endanum,"
sagði Orri.

Orri ræðir um hápunktana og lágpunktana í viðtalinu sem má nálgast í spilaranum hér að neðan. Dönsku deildirnar fara aftur af stað eftir rúma viku.
Orri Steinn: Þá hefði ég hlegið í andlitið á þér
Athugasemdir
banner
banner