Bayern hefur áhuga á Jackson - Isak ekki að fara að spila æfingaleiki - Höjlund á blaði Milan
   fös 08. ágúst 2025 11:45
Elvar Geir Magnússon
Bröndby segir hegðunina á Íslandi óásættanlega og er að bera kennsl á bullurnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danska fótboltafélagið Bröndby hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir ofbeldisfulla hegðun hjá hópi stuðningsmanna liðsins í kringum leikinn gegn Víkingi.

„Í sambandi við leikinn í Reykjavík í gær þá voru skemmdarverk og vandræði í kringum fámennan hóp stuðningsmanna. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt," segir í yfirlýsingu Bröndby en Víkingur vann leikinn 3-0.

„Við sýnum því skilning að það sé pirringur eftir svona úrslit en ekki er hægt að afsaka svona hegðun. Við erum núna að skoða þá atburði sem átti sér stað á vellinum og erum að skoða myndbandsupptökur til að bera kennsl á sökudólgana, sem svo eiga yfir höfði sér bann."

Slagsmál brutust út eftir leikinn og skemmdarverk voru unnin á salernisaðstöðu og fleiru á vellinum. Það voru um 200 stuðningsmenn Bröndby mættir til Íslands vegna leiksins en 30 manna hópur af boltabullum var til vandræða. Einn af þeim er sagður hafa kýlt lögreglumann í andlitið en einn aðili var handtekinn en sleppt að lokinni skýrslutöku.

Dönsku boltabullurnar voru ekki bara með vandræði á vellinum heldur líka á Ölveri þar sem þær hituðu upp fyrir leikinn. Meðal annars fékk rammi með trefli erkifjendanna í FCK að kenna á því, var rifinn niður og ramminn brotinn áður en treflinum var fleygt í burtu. Eftir leikinn brutust svo út slagsmál fyrir utan veitingastaðinn.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon

Athugasemdir
banner