Ítalíumeistarar Napoli eru svo gott sem búnir að ganga frá félagaskiptum Miguel Gutiérrez til sín frá Girona.
Napoli greiðir í heildina um 20 milljónir evra til að kaupa Gutiérrez sem gat valið á milli nokkurra félagsliða.
Gutiérrez er 24 ára vinstri bakvörður sem lék 34 leiki fyrir yngri landslið Spánar og festi sig í sessi í byrjunarliðinu hjá Girona á síðustu leiktíð.
Hann er uppalinn hjá Real Madrid og var spænska stórveldið með endurkaupsrétt á honum sem það ákvað að nýta sér ekki.
Gutiérrez gerir fimm ára samning við Napoli og kemur inn á svipuðum tíma og samlandi hans Juanlu Sánchez, sem hefur spilað svipað marga leiki fyrir yngri landsliðin.
Juanlu er bráðefnilegur hægri bakvörður og kantmaður sem er einnig gríðarlega eftirsóttur af Wolves á Englandi.
Sevilla samþykkti kauptilboð frá Úlfunum en hefur hingað til sagt tvisvar sinnum nei við Napoli. Spænska félagið vill fá jafn gott tilboð frá Ítalíumeisturunum og hefur borist frá Wolves.
Sevilla samþykkti 20 milljónir evra frá Wolves auk hlutfalli af endursöluvirði leikmannsins. Sevilla hafnaði svo 17 milljón evra tilboði frá Napoli.
Juanlu sjálfur gæti verið búinn að skipta yfir til Wolves ef hann vildi, en hann ætlar frekar að bíða eftir að Napoli nái samkomulagi við Sevilla um kaupverð.
Gutiérrez mun berjast við Mathías Olivera eða Leonardo Spinazzola um sæti í vinstri bakvarðarstöðunni. Olivera er eftirsóttur af ýmsum stórliðum í Evrópu á meðan félög frá Sádi-Arabíu hafa sýnt Spinazzola áhuga.
Juanlu er hugsaður sem bakvörður fyrir Napoli og gæti barist við Giovanni Di Lorenzo um byrjunarliðssætið ef fyrirliðinn verður áfram hjá félaginu í sumar. Hann gæti annars tekið sæti Alessandro Zanoli í hópnum sem verður seldur til Bologna á næstu dögum.
Þetta verða leikmenn númer sjö og átta til að vera fengnir til félagsins í sumar, eftir kaup á Sam Beukema, Noa Lang, Luca Marianucci, Lorenzo Lucca, Vanja Milinkovic-Savic og Kevin De Bruyne.
Napoli er því búið að kaupa leikmenn fyrir 120 milljónir evra í sumar, sem gætu orðið 160 milljónir með Spánverjunum tveimur.
Á sama tíma hefur félagið selt Victor Osimhen, Natan, Elia Caprile og fleiri fyrir um 100 milljónir evra.
02.08.2025 23:21
Úlfarnir reyna að stela Juanlu
Athugasemdir