Sóknarleikmaðurinn Yoane Wissa er ekki með í leikmannahópi Brentford sem er að spila æfingaleik við Borussia Mönchengladbach þessa stundina.
Wissa er staðráðinn í því að fara til Newcastle í sumar. Hann vill ekki verða eftir hjá Brentford eftir að félagið seldi tvo lykilmenn og missti þjálfarann frá sér.
Mögulegt er að Brentford neyði leikmanninn til að vera áfram innan sinna raða eftir frábært tímabil á síðustu leiktíð, þar sem hann skoraði 20 mörk og gaf 5 stoðsendingar í 39 leikjum í öllum keppnum.
Wissa, sem verður 29 ára eftir mánuð, er aðeins með tvö ár eftir af samningi sínum við Brentford. Talið er að félagið vilji að minnsta kosti 30 milljónir punda til að selja hann.
Brentford hafnaði 25 milljónum frá Newcastle fyrr í sumar en búist er sterklega við að þeir svarthvítu leggi fram endurbætt tilboð á næstu dögum.
Newcastle vonast til að geta lokið skiptunum í ágúst eftir að hafa misst af mikilvægum skotmörkum undanfarnar vikur. Alltaf þegar Newcastle er að bjóða í nýjan leikmann virðist hann velja að skipta frekar yfir til annars stórliðs. Nokkrir leikmenn hafa valið Chelsea framyfir Newcastle í sumar og nú virðist Benjamin Sesko vera búinn að velja Manchester United frekar.
06.08.2025 16:30
Wissa mættur til æfinga en vill enn færa sig um set
Athugasemdir