Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 08. september 2021 12:00
Elvar Geir Magnússon
Átta Brössum bannað að spila með enskum liðum um helgina
Roberto Firmino og Gabriel Jesus.
Roberto Firmino og Gabriel Jesus.
Mynd: Getty Images
Fred hjá Manchester United.
Fred hjá Manchester United.
Mynd: EPA
Átta brasilískum leikmönnum sem spila í ensku úrvalsdeildinni verður bannað að leika fyrir félagslið sín um helgina. Brasilíska fótboltasambandið hefur nýtt sér reglur FIFA.

Þetta hefur áhrif á Liverpool, Manchester City, Chelsea, Manchester United og Leeds United.

Samkvæmt reglum FIFA er hægt að setja fimm daga bann á leikmenn eftir landsleikjagluggann ef þeim var ekki hleypt í landsliðsverkefni. Bannið gildir þá 10. - 14. september.

Brasilía nýtti sér þessa reglu eftir að ensk úrvalsdeildarfélög hleyptu ekki leikmönnum í landsleiki ef að þeir voru spilaðir í löndum sem eru á rauðum lista á Englandi.

Leikmenn sem hefðu ferðast til landa á rauðum lista hefðu misst af nokkrum leikjum því samkvæmt breskum reglum þyrftu þeir að fara í tíu daga sóttkví við komuna til baka.

Auk þess að missa af leikjum sínum um helgina munu Thiago Silva, varnarmaður Chelsea, og Fred, miðjumaður Manchester United, missa af Meistaradeildarleikjum í næstu viku.

BBC segir að Richarlison hjá Everton muni þó ekki vera bannað að spila gegn Burnley á mánudag. Brasilíumenn gefa honum undanþágu þar sem Everton leyfði honum að spila á Ólympíuleikunum í sumar þegar það hafði rétt á að banna honum það.

Þessi regla hefur áhrif á þrjá leikmenn Liverpool; Roberto Firmino, Fabinho og Alisson; tvo leikmenn Manchester City; Ederson og Gabriel Jesus; og sóknarmanninn Raphinha hjá Leeds sem hafði verið valinn í brasilíska landsliðið í fyrsta sinn. Þeir mega ekki spila í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Fyrir landsleikjagluggann bað Gianni Infantino, forseti FIFA, um að breska ríkisstjórnin myndi gefa landsliðsmönnum undanþágu frá sóttkví.

Möguleiki er á að svipuð vandamál komi upp í næstu landsleikjagluggum sem eru í október og nóvember.
Athugasemdir
banner
banner