Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 09. febrúar 2023 11:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Verið að borga svolítið mikið fyrir vöru sem ekki er búin að sanna sig"
Lúkas Logi gekk í raðir Vals á dögunum.
Lúkas Logi gekk í raðir Vals á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári tók Atla Barkarson sem dæmi.
Kári tók Atla Barkarson sem dæmi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári og Arnar.
Kári og Arnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lúkas Logi Heimisson gekk á dögunum í raðir Vals frá Fjölni. Í aðdraganda skiptanna fór Lúkas í verkfall þar sem Fjölnir hafði ekki samþykkt tilboð frá Val. Lúkas er nítján ára efnilegur sóknarmaður sem var veturinn 2021-22 á láni hjá Empoli á Ítalíu.

Meira um málið:
Lúkas Logi: Eina úrræðið sem ég gat beitt

Víkingur hafði einnig áhuga á Lúkasi en á endanum fór hann í Val. Þeir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, og þjálfarinn Arnar Gunnlaugsson ræddu við Tómas Þór Þórðarson í Víkings Podkastinu og nefndi Kári nafn Lúkasar þegar rætt var um styrkingu á leikmannahópi Víkings.

„Við erum í þeirri stöðu að vera með rosalega sterkan hóp, rosalega góðir fótboltamenn sem við erum með, en auðvitað má alltaf bæta við sig. En hverjir eru það? Það er einn og einn leikmaður í flestum liðum sem myndi styrkja okkur. En það er ekki fræðilegur möguleiki að viðkomandi lið séu að fara sleppa þeim leikmanni. Þetta verður svolítið erfitt, þú verður að vera svolítið sniðugur í þessu og bíða eftir réttu augnablikunum," sagði Kári.

„Þetta er þungur markaður að vinna á og það er verið að borga svolítið mikið fyrir vöru sem ekki er búin að sanna sig (unproven product), eins og við sjáum með Lúkas Loga sem fór í Val. Það er verið að borga mjög háa upphæð fyrir þennan strák sem hefur bara spilað í fyrstu deild. Við vitum í rauninni ekkert hvað kemur út úr honum á næstu 1-2 árum. Það verður gaman að fylgjast með því hvort Valur sé alveg með puttann á púlsinum varðandi það að hann gangi beint inn í byrjunarliðið. Þannig leikmenn úr fyrstu deildinni er rosalega erfitt að finna. Að ganga inn í byrjunarlið Víkings, það er ekkert hver sem er sem getur það. Það er sama hversu vel þú fylgist með fyrstu deildinni, þú ert alltaf með það í huganum hvernig leikmaðurinn verður í úrvalsdeildinni."

Tómas beindi næstu orðum sínum að Arnari. „Víkingur og Breiðablik hafa verið hvað helst í að fá þessa „næstu" (ungu og efnilegu) leikmenn til sín. Núna er Valur komið á þennan markað með sín fjárráð. KR er líka að byrja núna. Markaðurinn er núna þannig að strákar sem eru ekki búnir að sanna sig eru að fá samninga sem leikmenn gátu varla leyft sér að dreyma um fyrir fimm árum," sagði Tómas.

„Við og Breiðablik vorum aðeins á undan og erum komin með orðspor. Við erum tiltölulega fljótir að selja út aftur. Leikmenn hafa líka fengið að berjast um titla og taka þátt í hörku Evrópuleikjum. Það sé komið orðspor og að leikmennirnir treysti okkur fyrir því að þróa þá, að þeir séu ekki bara að líta í peningana, þó að þeir skipti vissulega máli. Það er erfitt fyrir okkur að keppa við félögin sem hafa meira á milli handanna. Við þurfum að bjóða þeim eitthvað annað sem við erum vonandi búnir að sanna okkur aðeins í," sagði Arnar.

Óumflýjanlegt að eiga samskipti við umboðsmennina
Tómas rifjaði upp ummæli Arnars Grétarsson í Valshlaðvarpinu þar sem hann skaut á tengingu Víkings og Breiðabliks við umboðsmenn. „Er ósanngjarnt að segja á móti að leikmönnum sé ýtt þangað þar sem kakan verður bökuð og sett aftur í bakaríið?"

„Ég held að þetta sé nú kannski ekki alveg rétt. Það vill þannig til að Total Football (Stellar) eru með ca. 90% af þeim gæjum sem spila á Íslandi og eru á ákveðnum aldri. Það er óumflýjanlegt að eiga samskipti við þá. En ég held að Valsmenn séu með fleiri leikmenn á þeirra bókum en við. Það er annað mál," sagði Kári sem svaraði svo spurningu Tómasar.

„Það er óhætt að segja það, það er það sem við gefum okkur út fyrir að vera, að kenna þeim. Það eru gerðar miklar kröfur, spilum hápressubolta og það er flókið að spila hann. Við reynum að kenna þeim, dæmi með Atla Barkarson. Hann var ekki nægilega góður 2020 en 2021 er hann búinn að taka það mörg skref að hann er bara kandídat í að fara erlendis. Það nákvæmlega sama gerist með Loga (Tómasson), hann er orðinn kandídat í að fara erlendis. Við erum að reyna byggja þá upp og kenna þeim svo þeir verði nær því að vera fullmótaðir leikmenn heldur en þegar þeir fóru fyrst út. Þetta er rosalega taktískur fótbolta sem við erum að reyna spila," sagði Kári.

Í kjölfarið var svo rætt um hvatann fyrir leikmenn til að fara út í atvinnumennsku. Hér má nálgast þáttinn.
Athugasemdir
banner
banner