banner
   fim 09. apríl 2020 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vinnuhópur skoðar afleiðingar þess að slaufa tímabilinu í Belgíu
Fundi frestað frá 15. til 24. apríl
Ari Freyr Skúlason leikur í belgísku deildinni.
Ari Freyr Skúlason leikur í belgísku deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Búið er að fresta fundi hjá úrvalsdeild karla í Belgíu um það hvort eigi að aflýsa deildinni.

Keppni hefur verið stöðvuð í öllum löndum heims nema Hvíta-Rússlandi vegna kórónuveirunnar og alveg óljóst hvenær verður hægt að halda áfram að nýju ef það verður hægt á annað borð.

Stjórnendur belgísku úrvalsdeildarinnar höfðu mælt með því að keppni í deildinni yrði hætt og að Club Brugge, núverandi topplið deildarinnar, myndi fá titilinn. Ekki er hins vegar víst ef að deildinni verður hætt að Belgía verði með lið í Evrópukeppni á næsta tímabili. UEFA vill ekki að deildum verði hætt strax.

Það átti að funda um málið hjá belgísku úrvalsdeildinni þann 15. apríl, en búið er að fresta þeim fundi til 24. apríl og verður öllum félögum deildarinnar boðið að mæta.

Vinnuhópur var settur á laggirnar sem á að rannsaka það hvaða afleiðingar það myndi hafa að hætta tímabilinu. Vinnuhópurinn mun tilkynna niðurstöður sínar á fundinum seinna í mánuðinum.

Ari Freyr Skúlason leikur með Oost­ende sem er í næst neðsta sæti deildarinnar. Félag hans er sagt á barmi gjaldþrots.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner