Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 09. apríl 2024 21:07
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Stórbrotin mörk í sturluðum leik á Bernabeu - Arsenal gerði jafntefli við Bayern
Phil Foden skoraði magnað mark
Phil Foden skoraði magnað mark
Mynd: Getty Images
Erling Braut Haaland og Jude Bellingham faðmast eftir leik
Erling Braut Haaland og Jude Bellingham faðmast eftir leik
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Meistaradeildarkvöld eru oft ævintýraleg og það sýndi sig enn og aftur í kvöld.

Real Madrid og Manchester City gerðu 3-3 jafntefli í fyrri leik liðanna á Santiago Bernabeu í einhverjum ótrúlegasta leik tímabilsins í keppninni þar sem mörkin voru hvert öðru fallegra.

Bernardo Silva var sá sem kom keppninni um flottasta markið af stað er hann skoraði úr aukaspyrnu af 25 metra færi á 2. mínútu leiksins. Bernardo var fljótur að taka spyrnuna, sem hann setti neðarlega og átti Andriy Lunin, markvörður Madrídinga, að gera miklu betur.

Eduardo Camavinga jafnaði metin tíu mínútum síðar. Hann keyrði í átt að teignum, lét vaða fyrir utan, en boltinn fór af Ruben Dias og í netið. Stefan Ortega átti engan möguleika, þar sem boltinn breytti um stefnu.

Rodrygo var fljótur að svara með öðru marki en hann fékk þá stungusendingu frá Vinicius, stoppaði inn í miðjum vítateignum og potaði boltanum síðan undir Ortega. Vel gert hjá Brasilíumanninum.

Madrídingar fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn en í seinni hálfleik fengum við þrjú stórglæsileg mörk til viðbótar.

Phil Foden, sem hefur verið heitasti leikmaður Man City á tímabilinu, bauð upp á þrumufleyg rétt fyrir utan teig á 66. mínútu en sá hafnaði efst upp í vinstra horninu.

Liðsfélagi hans, Josko Gvardiol, vildi alls ekki vera minni maður en hann sýndi að hann getur ekki bara spilað vörn. Króatinn fékk boltann fyrir utan teiginn og hamraði honum með hægri í hægra hornið.

Real Madrid svaraði á 81. mínútu. Federico Valverde mætti sendingu Vinicius, tók hann viðstöðulaust meðfram grasinu og í vinstra hornið. Alvöru þrusa hjá Úrúgvæanum.

Sturlað 3-3 jafntefli á Bernabeu og eflaust margir sem bíða spenntir eftir seinni leiknum sem fer fram á Etihad-leikvanginum í næstu viku.

Arsenal í basli með Bayern

Arsenal og Bayern München gerðu óvænt 2-2 jafntefli á Emirates-leikvanginum.

Arsenal hefur verið í miklu stuði á tímabilinu en Bayern verið að spila langt undir getur. Það virðist ekki breyta miklu og mætti Bayern-liðið ákveðið í að fá eitthvað úr þessum leik.

Þýska liðið byrjaði ekkert sérlega vel. Bukayo Saka skoraði á 12. mínútu eftir góða sendingu Ben White og nokkrum mínútum síðar var White nálægt því að bæta við en Manuel Neuer sá við honum í markinu.

Bayern náði að svara og það sex mínútum eftir mark Arsenal en þeir Leroy Sané og Leon Goretzka skiptust á sendingum áður en Goretzka sendi Serge Gnabry í gegn. Hann setti boltann þægilega undir David Raya og í netið.

Þýska liðið fékk vítaspyrnu á 30. mínútu leiksins er William Saliba braut klaufalega á Sane í teignum. Harry Kane skoraði úr spyrnunni, hans sjötta mark á Emirates á ferlinum.

Mikel Arteta fleygði Leandro Trossard og Gabriel Jesus í leit að jöfnunarmarki og bar það árangur. Trossard jafnaði eftir undirbúning Jesus, sem reyndist mikill léttir fyrir heimamenn.

Undir lok leiks komst Bayern nálægt því að vinna leikinn en skot Kingsley Coman hafnaði í stöng. Lokatölur því 2-2 og ekki beint frábært veganesti sem Arsenal fer með til Þýskalands. Allt opið eftir báða leiki kvöldsins!

Úrslit og markaskorarar:

Arsenal 2 - 2 Bayern
1-0 Bukayo Saka ('12 )
1-1 Serge Gnabry ('18 )
1-2 Harry Kane ('32 , víti)
2-2 Leandro Trossard ('76 )

Real Madrid 3 - 3 Manchester City
0-1 Bernardo Silva ('2 )
1-1 Ruben Dias ('12 , sjálfsmark)
2-1 Rodrygo ('14 )
2-2 Phil Foden ('66 )
2-3 Josko Gvardiol ('71 )
3-3 Federico Valverde ('79 )
Athugasemdir
banner