Real Madrid og Chelsea komust ekki að samkomulagi um kaupverð í fyrstu viðræðum sínum um þýska sóknartengiliðinn Kai Havertz.
Chelsea vill fá 75 milljónir evra fyrir leikmanninn en Real Madrid virðist ekki vera reiðubúið til að borga meira en 50 milljónir.
Stjórnendur Real Madrid eru hrifnir af Havertz og hefur Carlo Ancelotti einnig miklar mætur á honum en félagið er ekki reiðubúið til að fjárfesta svo hárri upphæð í hann.
Havertz er að verða 24 ára gamall og hefur komið að 47 mörkum í 139 leikjum með Chelsea.
Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið og virðist ekki vera reiðubúinn til að skrifa undir nýjan samning. Chelsea er tilbúið til að selja Havertz og býst við að fleiri félög munu sýna honum áhuga.
Athugasemdir