Arsenal líklegt til að fá Eze - Arsenal hefur enn ekki náð samkomulagi um Gyökeres - Napoli vill Nunez
banner
   mið 09. júlí 2025 12:05
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Af hverju nær Ísland ekki betri árangri?
Hugleiðingar um þróun íslenska fótboltans
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
EM KVK 2025
Mynd: EPA
Ég hef eytt öllu lífinu mínu í fótbolta. Ég hef Pro þjálfaragráðu. Ég hef þjálfað 2 A-landslið kvenna í 8 ár og tekið þátt í 3 lokakeppnum. Vann bronsverðlaun í einni þeirra. Ég vinn m.a. hjá KSÍ við að taka út þjálfara í félögum landsins. Ég tel mig vita vel hvað ég er að skrifa um hér að neðan.

Ég horfði á Sviss - Ísland. Ég sá íslenska landsliðið berjast og stelpurnar hlaupa fyrir hvora aðra strax frá fyrstu mínútu og gefa fá færi á sér. Þær virkuðu ekki nærri eins stressaðar og gegn Finnlandi. Ég sá lið sem var með hættuleg löng innköst og sterkt í föstum leikatriðum í vörn og sókn. Mér fannst liðið í raun miklu betra en gegn Finnlandi. Þær gáfu allt sitt í leikinn og létu finna vel fyrir sér í návígjum.

Ég var stoltur af þeim og fann til með þeim að hafa tapað. Ég táraðist eins og þær þegar ég horfði á viðtölin við þær eftir leikinn með tárin í augunum. Sumar þeirra þjálfaði ég einu sinni og ég fann til með þeim. Ég þekki vinnuna, draumana og fórnirnar sem búa að baki að vera í lokakeppni. Ég sá Ísland eiga sín sláarskot en að þessu sinni voru þau sláin út eða sláin yfir, ekki sláin inn sem hefði breytt leiknum. Þannig er leikurinn okkar fagri.

En það góða er að við getum bætt okkur!

Ísland er hærra skrifað á heimslistanum en öll liðin í riðlinum okkar en þau eru öll tiltölulega jöfn að getu þó að mér finnist í raun úrslitin í leikjunum hingað til frekar sanngjörn. Hin landsliðin í riðlinum virka öll lengra komin í uppspili og sóknarleik en við. Af hverju? Ástæðan er sennilega aðallega sú að við búum ekki til eins marga tæknilega góða leikmenn og aðrar þjóðir. Við getum klárlega bætt okkur eitthvað í uppspilinu en A-landsliðsþjálfari býr ekki til tæknilega góða leikmenn, alveg sama hvað hann heitir. Hann fær nokkrar æfingar á ári með landsliðið sitt og hann notar þær æfingar fyrst og fremst í taktík. Í lokakeppni breytist öll íslenska þjóðin í leikgreinendur og það er vissulega betra en þegar þjóðin hafði engan áhuga á kvennalandsliðinu. Kröfurnar eru orðnar miklar á árangur en ef við viljum að þetta breytist þá eigum við frekar skoða stóru myndina í víðara samhengi og hluti eins og:

1. KSÍ fær ekki krónu í afreksstyrk frá ÍSÍ og hefur ekki fengið síðan árið 2017 - Eiga Stelpurnar okkar samt að komast í 8-liða úrslit lokakeppni EM og í lokakeppni HM?

2. Á Íslandi eru mjög mörg félög, má sameina sum af þeim? Öll þeirra þurfa dýra aðstöðu þrátt fyrir takmarkaðan fólksfjölda, mætti efla gæðastarf félagana frekar fyrir peninginn sem sparast við sameiningar og ná þannig að láta fleiri góða leikmenn æfa og spila saman daglega undir handleiðslu fleiri og betri þjálfara? Hvað er mögulegt að gera ef t.d. efnilegustu stelpur Keflavíkur/Njarðvíkur/Grindavíkur/Víðis/Reynis og Þróttar Vogum myndu æfa saman nokkrum sinnum í viku í mörg ár með þjálfara sem eru frábærir í að þróa tæknilega framúrskarandi leikmenn, kenna þeim t.d. að taka á móti bolta með mann í bakinu?

3. Kvennamegin eru örsjaldan landsleikir fyrir U21 eða U23 ára landslið kvenna og það landslið var ekki starfrækt í áratugi, ætlumst við samt til að A-landslið kvenna fái stöðugt frábæra leikmenn upp sem komast í lokakeppni og áfram í 8-liða úrslit í lokakeppni?

4. Erlendar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa margar gæðaeftirlit eða gera úttekt á gæðastarfi félaganna og verðlauna félögin jafnvel fjárhagslega eða veita þeim gæðastimpil sem standa sig best í að búa til leikmenn/atvinnumenn og konur/landsliðsfólk. Er Íslandi með svona kerfi? Nei. Er starf félaganna alltaf frábært? Nei. Eigum við samt að vinna þessar þjóðir sem hafa slíkt kerfi?

5. Besti aldurinn til að þjálfa tækni er c.a. 6-14 ára, hver er að þjálfa þann aldur og hvernig í félögum landsins? Eftir c.a. 14 ára aldur er mjög erfitt að bæta tækni leikmanns. Arsene Wenger yfirmaður knattspyrnuþróunar hjá FIFA segir að leikmaður sem hafi ekki tækni við 14 ára aldur muni aldrei ná langt í fótbolta, hann/hún geti gleymt því. Á Íslandi er kerfi þar sem KSÍ menntar þjálfarana og býr til mót en að öðru leyti skiptum við okkur sennilega of lítið af hvað er að gerast í félögunum og gæðastarfi þeirra á barna og unglingsaldri. Flestir sem stjórna í félögunum gera það af áhuga og ástríðu en hafa það ekki að atvinnu. Allir gera sitt besta en þarna er mjög stórt rými til bætingar.

6. Í hverri umferð ár eftir ár í Bestu deild karla eru um 140 leikmenn sem fá ekki að spila neitt eða mjög takmarkað því hér er ekkert varaliðskerfi, ætlumst við samt til að þessir leikmenn þróist jafn hratt og í löndunum í kringum okkur sem hafa varaliðskerfi? Svipaður fjöldi í Lengjudeild karla og sama kvennamegin, svona hefur þetta verið í áratugi.

Getum við gert kröfur um árangur þegar þetta er svona og ætlast til að vinna þjóðir sem hafa varaliðskerfi? Varaliðskerfi myndi þýða að við þróum næstum helmingi fleiri leikmenn í hverri viku.

7. Nánast ekkert félag á Íslandi er með tæknistjóra - technical director. Yfirþjálfarar eru oft á haus við að finna dómara á leiki, slökkva elda, sinna foreldrum og ýmsum vandamálum sem koma upp og ná þá minna að sinna gæðastarfinu innan félagsins og gæðum þjálfunar. Þá fá þjálfararnir minni leiðsögn og eftirfylgni til að þróast og verða betri og kenna réttu atriðin á réttum aldri.

8. Á síðustu 7 árum hefur A-landslið karla fallið niður um 56 sæti á heimslista FIFA og situr núna í 74.sæti. Af hverju? Hvað getum við gert betur? Einu sinni vorum við númer 18 í heiminum og fórum á stórmót oftar en einu sinni. Einu sinni voru bæði A-landslið karla og A-landslið kvenna í 8 liða úrsitum EM. Aðeins 5 þjóðir í Evrópu náðu því ef ég man rétt. Einu sinni var meira að segja U17 ára landsliðið kvenna í 4 liða úrslitum EM. Erum við á réttri leið? Hvað getum við gert betur?

9. A-landslið kvenna átti 3 atvinnumenn erlendis árið 2009, í dag eru 18 af 23 leikmönnum í A-landsliðshópi Íslands að leika með félögum erlendis. Einungis 2 leikmenn í 23 manna EM hóp Íslands eru yngri en 30 ára og leika með íslensku félagi. Það er því óhætt að segja að landsliðsþjálfari getur í raun ekkert skipt sér neitt af daglegri þjálfun leikmanna þegar þær eru komnar í A-landsliðið. Hann er háður þjálfurum félagsliða erlendis um að bæta leikmennina.

KSÍ hefur lítið sem ekkert að segja með neina þessa leikmenn og því þarf fókusinn að vera á inngrip í gæðastarf íslensku félaganna þegar leikmenn eru miklu yngri og líka á tækniþjálfunaraldri. Þannig aukum við vonandi verulega þann fjölda leikmanna sem geta orðið tæknilega nógu góðar til að geta orðið atvinnumenn erlendis seinna meir og A-landsliðsmenn/A-landsliðskonur seinna meir. Okkur vantar leikmenn sem verða ástfangnar af boltanum sínum og geta gert hvað sem er við hann. Þær eru 6-14 ára í dag. Eru þær að fá þá þjálfun í þínu félagi?

10. Í lokakeppni EM uppskerðu eins og þú sáir. Árangur er margra ára vinna viðkomandi knattspyrnusambands, félaganna í landinu og allra sem koma að starfinu. Núverandi staða liðins er bara þar sem við erum stödd núna í að búa til leikmenn og A-landslið. Margt hefur verið vel gert og margt getum við gert ennþá betur. Vonandi náum við að bæta þessi atriði og fleiri sem knattspyrnuþjóð á næstu árum til að ná ennþá betri árangri því fátt hefur sameinað þjóðina okkar meira en árangur A-landsliðanna okkar á knattspyrnuvellinum!

Ég enda með þessu heilræði á meðfylgjandi mynd sem kemur frá besta þjálfara allra tíma John Wooden körfuboltaþjálfara UCLA en þar er skilgreining hans á hvað árangur er sem við getum öll spurt okkur að og lært af.

Áfram Ísland!
Vinnum Noreg!
Siggi Raggi.
Athugasemdir
banner