Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 10. apríl 2020 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spila fótbolta fyrir framan gínur í Hvíta-Rússlandi
Mynd: Getty Images
Dynamo Brest, ríkjandi meistarar efstu deild Hvíta-Rússlands, fara nýstárlegar leiðir í því að auka mætingu á leikjum sínum. Félagið hefur komið fyrir gínum í stúkunni sem búið er að klæða í fótboltatreyjur og klippa andlit á.

Hvíta-Rússland er eina landið í Evrópu þar sem fótbolti er enn spilaður, en hlé hefur verið gert annars staðar vegna kórónuveirunnar. Mæting á leiki í Hvíta-Rússlandi er þó farin að minnka vegna áhættunnar.

Stuðningsmenn hjá tíu af 16 félögum efstu deildar, þar á meðal hjá Dynamo og Íslendingaliðinu BATE Borisov, hafa ákveðið að sniðganga leiki í deildinni. Stuðningsmennirnir halda sig fjarri og því eru gínurnar mættar.

Dynamo hefur gefið þeim sem vilja tækifæri á því að kaupa miða á leiki og fá mynd af sér í gínuhaus í stúkunni.

„Við skiljum þá stuðningsmenn sem vilja ekki koma á leiki. Við ákváðum að búa til þessa hugmynd í þessari stöðu," segir aðalritari Dynamo Brest, Vladimir Machulsky.

Hvít-Rússar hafa ekki tekið hart á kórónuveirufaraldrinum. Forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko, hefur hvatt landsmenn til að drekka Vodka og þvo sér um hendurnar með því.

Einn Íslendingur leikur í deildinni en það er Willum Þór Willumsson sem er hjá BATE Borisov.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner