Fortuna Düsseldorf, lið Ísaks Bergmanns Jóhannessonar og Valgeirs Lunddal Friðrikssonar, vann 2-0 sigur á Schalke í þýsku B-deildinni í dag, en þó vonin um að komast í umspil sé enn til staðar þarf enn ýmislegt að gerast til að það verði að veruleika.
Ísak Bergmann var eins og venjulega í byrjunarliði Fortuna í sigri liðsins í dag á meðan Valgeir Lunddal kom inn af bekknum í síðari hálfleik.
Sigurinn heldur liðinu áfram í baráttu um umspilssæti fyrir lokaumferðina en möguleikinn er lítill.
Fortuna er með 53 stig í 5. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá umspilssæti. Til þess að Fortuna komist í umspilsleikinn þarf liðið að vinna Magdeburg í lokaumferðinni og treysta á að bæði Elverberg og Paderborn tapi sínum leikjum. Jafntefli er ekki nóg þar sem bæði liðinu eru með töluvert betri markatölu en Fortuna.
Það lið sem hafnar í 3. sæti deildarinnar mætir þriðja neðsta liði efstu deildar í hreinu úrslitaeinvígi um það hvort liðið mun spila í efstu deild á næsta tímabili.
Benoný Breki Andrésson og hans menn í Stockport County gerðu 2-2 jafntefli við Leyton Orient í fyrri leiknum í undanúrslitum C-deildarumspilsins.
Framherjinn kom ekkert við sögu hjá Stockport í leiknum sem mætir Leyton heima í seinni leiknum. Sigurvegarinn mun spila við Charlton eða Wycombe í hreinum úrslitaleik um sæti í B-deild.
Athugasemdir