Don Goodman, fyrrum framherji Wolves á Englandi, segir að Matheus Cunha ætti að hugsa sig vel og vandlega um framtíð sína, en hann er óviss um að Manchester United sé rétta skrefið á þessum tímapunkti.
Erlendir fjölmiðlar hafa greint frá því að Cunha sé nálægt því að ganga í raðir United eftir tímabilið.
Cunha hefur verið langbesti maður Wolves og er það að stórum hluta honum að þakka að liðið mun spila áfram í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Goodman segir í viðtali við BoyleSports að United sé ekki endilega frábær áfangastaður á þessum tímapunkti.
„Ég velti því fyrir mér hvort Matheus Cunha þurfi eitthvað að endurskoða það að semja við Man Utd. Ef ég væri hann þá myndi ég hugsa mig um hvort það væri gott skref að fara til United á þessum tímapunkti, sem þarf enn að vinna í hinum ýmsu málum og halda áfram að endurbyggja til að komast á þann stað sem það vill vera á.“
„Mér finnst Cunha vera topp leikmaður sem getur spilað fyrir hvaða lið sem er í ensku úrvalsdeildinni eða Evrópuboltanum. Að mínu mati er hann bara það góður. Hann þarf vissulega stundum að laga skapið, sem er allt annað vandamál, en Man Utd væri mjög heppið að fá hann.“
„Ef ég horfi á þetta frá hans stjórnarhorni og án þess að vísa frá sögu og hefð Manchester United þá kæmi það mér verulega á óvart ef Cunha væri ekki með aðra og betri kosti í stöðunni. Ég veit að þetta er miklu stærra en þetta, en þegar ég yfirgaf Sunderland á sínum tíma, sem er stórt félag, til að ganga í raðir Wolves þá var það af því Wolves var á þeim tímapunkti í betri stöðu til að koma mér á þann stað sem ég vildi vera á.“
„Man Utd getur vissulega enn unnið Evrópudeildina sem gæti breytt hlutunum, en Cunha þarf samt að setjast niður með föruneyti sínu lok tímabils og fara í gegnum öll tilboðin sem hann mun fá,“ sagði Goodman.
United hefur barist í neðri hlutanum allt tímabilið og fer þetta í sögubækurnar sem eitt versta tímabil í sögu félagsins, en það á enn möguleika á að bjarga því með því að vinna Evrópudeildina í lok maí.
Athugasemdir