Síðustu leikjum kvöldsins er lokið víða um Evrópu og komu nokkrir Íslendingar við sögu.
Ágúst Eðvald Hlynsson var í byrjunarliðinu hjá AB Kaupmannahöfn sem gerði jafntefli við Fremad Amager í þriðju efstu deild í Danmörku.
AB siglir lygnan sjó í efri hluta deildarinnar á meðan Amager er í harðri baráttu um að komast upp um deild. Ægir Jarl Jónasson byrjaði á bekknum í liði AB.
Í næstefstu deild í Hollandi var Helgi Fróði Ingason í byrjunarliði Helmond sem steinlá á heimavelli gegn De Graafschap, eftir að hafa tekið forystuna í fyrri hálfleik.
Lokatölur urðu 1-4 og endar Helmond í 13. sæti deildarinnar, með 46 stig úr 38 umferðum. Í efstu deild tapaði Willem II heimaleik gegn Heracles en bakvörðurinn knái Rúnar Þór Sigurgeirsson var ekki í hóp vegna meiðsla.
Gengi Willem hefur verið hörmulegt undanfarna mánuði og er liðið í fallbaráttu.
Willem er í þriðja neðsta sæti deildarinnar sem stendur sem gefur þátttökurétt í umspilsleik til að halda sæti sínu í efstu deild. Umspilsleikurinn verður gegn þriðja besta liðinu úr næstefstu deild.
Birkir Bjarnason sat þá á bekknum er Brescia gerði 2-2 jafntefli við Modena í næstefstu deild á Ítalíu, Serie B.
Brescia er í harðri fallbaráttu fyrir gríðarlega spennandi lokaumferð deildartímabilsins, ásamt fyrrum Serie A liðum Sampdoria, Frosinone og Salernitana.
Að lokum var Málfríður Anna Eiríksdóttir í byrjunarliði B93 í efstu deild danska kvennaboltans.
B93 steinlá á heimavelli gegn Kolding þar sem lokatölur urðu 1-5 fyrir gestina.
Fremad Amager 1 - 1 AB
Helmond 1 - 4 De Graafschap
Willem II 1 - 2 Heracles
Modena 2 - 2 Brescia
B93 1 - 5 Kolding
Athugasemdir