De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   fös 09. maí 2025 21:08
Ívan Guðjón Baldursson
Championship: Sunderland með forystu í umspilinu
Eliezer Mayenda gerði sigurmarkið í kvöld eftir slæm varnarmistök.
Eliezer Mayenda gerði sigurmarkið í kvöld eftir slæm varnarmistök.
Mynd: Sunderland
Coventry 1 - 2 Sunderland
0-1 Wilson Isidor ('68 )
1-1 Jack Rudoni ('70 )
1-2 Eliezer Mayenda ('88 )

Coventry City tók á móti Sunderland í undanúrslitaleik umspilsins í Championship deildinni í kvöld og var fyrri hálfleikur afar tíðindalítill.

Heimamenn í liði Coventry héldu boltanum mjög vel innan liðsins en sköpuðu sér ekki góð marktækifæri á meðan gestirnir frá Sunderland vörðust vel og reyndu að beita skyndisóknum.

Staðan var markalaus eftir rólegan fyrri hálfleik og hélt leikurinn áfram í svipuðu fari í síðari hálfleik, þar til Sunderland tókst að skora eftir skyndisókn á 68. mínútu.

Enzo Le Fée gaf glæsilega stungusendingu innfyrir vörnina á sóknarmanninn fljóta Wilson Isidor sem brunaði með boltann að vítateignum og skoraði með hnitmiðuðu skoti í hornið.

Gleði gestanna var þó skammlíf því Coventry tókst að jafna tveimur mínútum síðar eftir slakan varnarleik Sunderland. Jack Rudoni var skilinn eftir einn og óvaldaður innan vítateigs svo hann gat skallað frábæra fyrirgjöf frá Milan van Ewijk í netið og jafnað stöðuna í 1-1.

Bæði lið voru hættuleg á lokakaflanum en það voru gestirnir frá Sunderland sem náðu að setja boltann í netið til að tryggja sér dýrmætan sigur í þessum fyrri undanúrslitaleik.

Aftur var Milan van Ewijk í sviðsljósinu en í þetta sinn fyrir skelfileg varnarmistök, þar sem hann ætlaði að gefa boltann til baka á markvörðinn en gaf þess í stað á Eliezer Mayenda, sóknarmann Sunderland. Mayenda gerði vel að leika á Ben Wilson markvörð Coventry áður en hann kláraði í autt markið. Lokatölur 1-2.

Liðin mætast aftur í Sunderland eftir fjóra daga, þriðjudagskvöldið 13. maí. Sigurvegari viðureignarinnar mætir annað hvort Bristol City eða Sheffield United í úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner