„Staðan á hópnum er fín. Jörgen Pettersen er að koma til og gæti verið í hóp á morgun. Almennt séð erum við með 3-4 spurningarmerki, eru tæpir, fyrir leikinn á morgun, eins og þetta hefur verið undanfarið. Við tökum ákvörðun í dag," segir Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, við Fótbolta.net.
ÍBV á leik gegn KR annað kvöld í 6. umferð Bestu deildarinnar. Í aðdraganda leiksins má sjá á félagaskiptasíðu KSÍ að nokkrir leikmenn hafa fengið félagaskipti í venslaliðið KFS.
ÍBV á leik gegn KR annað kvöld í 6. umferð Bestu deildarinnar. Í aðdraganda leiksins má sjá á félagaskiptasíðu KSÍ að nokkrir leikmenn hafa fengið félagaskipti í venslaliðið KFS.
„Það er búið að liggja fyrir að strákarnir i 2. flokknum þurfa að fá meistaraflokksleiki. Sú reglugerð að menn mættu vera báðu megin var felld, því miður fyrir okkur. Við ákváðum því að skipta þeim í KFS svo þeir fengju meistaraflokksleiki. Bestu leikmennirnir okkar í 2. flokki eru komnir í KFS og svo lánuðum við Viggó (Valgeirsson) í Njarðvík. Maður er ekki bara að hugsa um þá ellefu sem byrja hverju sinni, það þarf að finna verkefni fyrir hina líka."
Nú mega vera níu varamenn á bekknum ef a.m.k. tveir eru á 2. flokks aldri (fæddir 2006 eða síðar). Hvernig sérðu þá stöðu eftir þessi félagaskipti?
„Það hefur mikið breyst. Leikmenn sem voru á skýrslu (sem þessir yngri leikmenn), ég gat alveg séð þá spila eitthvað, þó svo að þeir væru aðeins á eftir hinum. Ég hugsa að þetta fari svolítið eftir heima- og útileikjum. Ég sé ekki fyrir mér að við tökum með okkur leikmenn úr 2. eða 3. flokki með í ferðir upp á land nema það sé eitthvað sérstakt."
Leikurinn á morgun er gegn sóknarsinnuðu liði KR. Hvað þarf að stoppa?
„Sóknarlega séð er þetta besta liðið í deildinni og það segir sig sjálft að það þarf að stoppa margt hjá þeim. Við höfum lagt þetta þannig upp gegn stærri liðunum, Stjörnunni og Víkingi, að það sé alltof langt mál að vera spá í einstaka leikmanni í þessum liðum. Það sama með KR, það eru svo margir góðir leikmenn. Við höfum því einbeitt okkur að okkur sjálfum, þar hefur fókusinn verið. Við viljum verjast vel, en viljum líka spila góðan fótbolta og skora mörk. Við þurfum, miðað við tölfræði KR, að skora nokkur mörk ef við ætlum að vinna þá."
Vicente Valor er nýkominn í ÍBV frá KR. Hann var keyptur aftur til ÍBV í vor eftir að hafa samið við KR síðasta haust. Sérðu einhverja aukahvatningu í honum að vinna KR?
„Nei, ekki miðað við það sem ég þekki af honum. Mér finnst hann rosalega vel gerður einstaklingur og þegar hann var áður í ÍBV þá fór mjög gott orð af honum. Hann er mikill fagmaður og leggur sig allan fram. Ég hef ekki heyrt annað en að hann hafi verið þannig líka hjá KR. Ég held að það sé ekkert 'revenge mode' hjá honum. Hann vill bara gera vel fyrir ÍBV. Þetta væri góð sögulína, en ég held að hann sé ekki þar. Það hefur tekið smá tíma fyrir hann að komast inn í hlutina hjá okkur, er að koma sér hægt og rólega í sitt besta form."
Leiknum var seinkað um tvo klukkutíma með stuttum fyrirvara. Það er vegna veðurspá morgundagsins og siglingarleið Herjólfs.
„Það lítur þannig út í fyrramálið að Herjólfur fari í fyrramálið í Þorlákshöfn. Leikjum hjá ÍBV hefur verið frestað þegar það hefur verið raunin. En það lítur þannig út eftir hádegið að við getum farið í gegnum Landeyjahöfn. Við erum að reikna með að það takist og þess vegna er verið að seinka leiknum," segir Láki.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 5 | 3 | 1 | 1 | 10 - 4 | +6 | 10 |
2. Vestri | 5 | 3 | 1 | 1 | 6 - 2 | +4 | 10 |
3. Breiðablik | 5 | 3 | 1 | 1 | 10 - 8 | +2 | 10 |
4. KR | 5 | 1 | 4 | 0 | 15 - 10 | +5 | 7 |
5. ÍBV | 5 | 2 | 1 | 2 | 6 - 7 | -1 | 7 |
6. Afturelding | 5 | 2 | 1 | 2 | 4 - 5 | -1 | 7 |
7. Fram | 5 | 2 | 0 | 3 | 10 - 9 | +1 | 6 |
8. Valur | 5 | 1 | 3 | 1 | 8 - 9 | -1 | 6 |
9. Stjarnan | 5 | 2 | 0 | 3 | 7 - 10 | -3 | 6 |
10. ÍA | 5 | 2 | 0 | 3 | 5 - 9 | -4 | 6 |
11. FH | 5 | 1 | 1 | 3 | 8 - 8 | 0 | 4 |
12. KA | 5 | 1 | 1 | 3 | 6 - 14 | -8 | 4 |
Athugasemdir