Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   lau 10. maí 2025 16:15
Brynjar Ingi Erluson
England: Þungu fargi létt af Southampton sem hélt hreinu gegn Man City
Lærisveinar Pep Guardiola fóru illa að ráði sínu
Lærisveinar Pep Guardiola fóru illa að ráði sínu
Mynd: EPA
Kevin Schade skoraði þriðja leikinn í röð
Kevin Schade skoraði þriðja leikinn í röð
Mynd: EPA
Danny Welbeck var á skotskónum hjá Brighton
Danny Welbeck var á skotskónum hjá Brighton
Mynd: EPA
Everton vann öflugan sigur á Fulham
Everton vann öflugan sigur á Fulham
Mynd: EPA
Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City gerðu óvænt markalaust jafntefli við fallið lið Southampton í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Þetta stig þýðir að Southampton mun ekki jafna neyðarlegt met Derby County frá 2008.

Ivan Juric, stjóri Southampton, talaði um það í síðasta mánuði að markmið liðsins væri nú að sleppa við að eiga metið yfir fæst stig í deildinni.

Derby setti það met tímabilið 2007-2008 þegar það fékk aðeins ellefu stig á tímabilinu, en Southampton var einmitt með ellefu stig fyrir þessa umferð.

Man City var auðvitað með öll völd á leiknum en var samt ekki að skapa mikla hættu á síðasta þriðjungi vallarins. Í síðari hálfleik bjuggu gestirnir til fleiri góð færi, en leikmenn Southamptons vörðust ótrúlega vel.

Jack Stephens bjargaði á línu og þá setti Nico O'Reilly boltann hátt yfir úr dauðafæri. Savinho, Kevin De Bruyne og Omar Marmoush komust allir nálægt því að skora á lokakaflanum en þetta var bara ekki þeirra dagur og lokatölur 0-0.

Mikill fögnuður hjá Southampton-mönnum sem staðfestu að þeir eru ekki versta lið í sögu deildarinnar. Liðið er á botninum með 12 stig en þetta setti Man City hins vegar í vonda stöðu í Meistaradeildarbaráttunni. Liðið er í 3. sæti með 65 stig, en gæti dottið niður í 4. sæti ef Newcastle eða Chelsea vinna á morgun.

Kevin Schade tryggði Brentford 1-0 sigur á Ipswich á Portman Road.

Þjóðverjinn var að skora þriðja deildarleikinn í röð og ætlar hann að enda tímabilið með stæl.

Brentford er í 8. sæti með 55 stig, fimm stigum frá Aston Villa sem er í 7. sæti.

Everton vann þá Fulham, 3-1. Raul Jimenez kom Fulham yfir á 17. mínútu með hörkuskalla áður en Vitaliy Mykolenko jafnaði undir lok hálfleiksins er skot hans fyrir utan teig fór af varnarmanni og framhjá Bernd Leno í markinu.

Michael Keane kom Everton yfir tuttugu mínútum fyrir leikslok með skalla og þá bætti Beto við þriðja markinu til að tryggja sigurinn stuttu síðar.

Fulham er í 11. sæti með 51 stig en Everton í 13. sæti með 42 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

Danny Welbeck og Brajan Gruda skoruðu mörkin í 2-0 sigri Brighton á Wolves.

Welbeck skoraði úr vítaspyrnu á 28. mínútu en Gruda, sem kom inn af bekknum í síðari hálfleik, gerði út um leikinn með marki fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.

Brighton kom sér í 9. sæti deildarinnar með 55 stig og á enn möguleika á Evrópusæti en Wolves er í 14. sæti með 41 stig.

Fulham 1 - 3 Everton
1-0 Raul Jimenez ('17 )
1-1 Vitaliy Mykolenko ('45 )
1-2 Michael Keane ('70 )
1-3 Beto ('73 )

Ipswich Town 0 - 1 Brentford
0-1 Kevin Schade ('18 )

Southampton 0 - 0 Manchester City

Wolves 0 - 2 Brighton
0-1 Danny Welbeck ('28 , víti)
0-2 Brajan Gruda ('85 )
Athugasemdir
banner
banner