Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   lau 10. maí 2025 09:15
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Gríðarstórt verkefni sem bíður Alonso hjá Real Madrid
Alonso tekur við stjórnartaumunum hjá Real Madrid í sumar.
Alonso tekur við stjórnartaumunum hjá Real Madrid í sumar.
Mynd: EPA
Það er pressa úr öllum áttum hjá Real Madrid.
Það er pressa úr öllum áttum hjá Real Madrid.
Mynd: EPA
Ancelotti kveður Real Madrid sem goðsögn.
Ancelotti kveður Real Madrid sem goðsögn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta hefur verið verst geymda leyndarmál fótboltaheimsins," segir fótboltasérfræðingurinn Guillem Balague en í gær var staðfest að Xavi Alonso hættir sem stjóri Bayer Leverkusen eftir tímabilið.

„Hann verður brátt tilkynntur sem nýr stjóri Real Madrid - um leið og brottför Carlo Ancelotti verður opinberlega staðfest. Ítalska goðsögnin stígur til hliðar og tekur við stjórn brasilíska landsliðsins á meðan Alonso snýr aftur á Bernabeu sem arftaki hans."

Alonso er rísandi stjarna á stjóraferli sínum og náði mögnuðum árangri þegar hann stýrði Leverkusen til síns fyrsta þýsa meistaratitils í fyrra. Hann fékk svo tilboð frá Madríd sem hann gat ekki hafnað og mun leiða spænska stórliðið inn í nýja tíma.

Svakaleg pressa úr öllum áttum
„Verkefnið sem Alonso tekur að sér hjá Real Madrid er gríðarstórt. Hann tekur við leikmannahópi sem er í stöðugri þróun og þarf að finna jafnvægi með Kylan Mbappe og Vinicius Jr. Hann þarf að koma inn ungstirnum á borð við Endrick og Arda Guler, skipta út eldri leikmönnum og skila titlum tafarlaust í hús," segir Balague í pistli hjá BBC.

„Hann þarf að eiga í samskiptum við stjórnarmenn sem vilja hafa áhrif, aðdáendahóp sem krefst tafarlausrar velgengni og fjölmiðla sem gera óraunhæfar kröfur frá fyrsta degi."

Goðsögn að kveðja
Real Madrid er enn í baráttu um spænska meistaratitilinn þetta tímabilið en liðið verður að vinna Barcelona á morgun til að eiga raunhæfa möguleika á að verja titilinn.

„Eftir að hafa unnið La Liga og Meistaradeildina í fyrra þá myndi tímabil án titils réttlæta ákvörðun félagsins um að binda enda á Ancelotti-tímabilið. En áður en það gerist fær Bernabeu tækifæri til að klappa fyrir honum í síðasta sinn og þakka honum fyrir gífurlegt framlag hans til félagsins," segir Balague.

„Fimmtán bikarar, fleiri en nokkur annar stjóri í sögu félagsins hefur náð í. Hann kom með stöðugleika, reisn og ró í ringulreiðina. Hann vann með stæl, án þess að þurfa að öskra, og kom reglu á liðið þegar óreiða var í félaginu."

Af hverju fór að halla undan fæti hjá Ancelotti?
Florentino Perez, forseti Real Madrid, bjóst við því að liðið tæki samstundis skref fram á við með komu Kylian Mbappe. En jafnvægið í liðinu riðlaðist, meðal annars þar sem Toni Kroos lagði skóna á hilluna og skarð hans var ekki almennilega fyllt.

„Það sköpuðust einnig vandamál í klefanum. Á bak við luktar dyr komu upp ágreiningur um líkamlegan undirbúning og aga. Perez, sem hefur alltaf verið mjög virkur, varð háværari í gremju sinni. Frá stjórninni komu athugasemdir um skort á varnarvinnu frá stærstu stjörnunum. Þá vöknuðu efasemdir um hvernig Ancelotti höndlað Guler og Endrick, og hvort þeir næðu að blómstra undir hans handleiðslu."

„Það myndaðist stöðug spenna og í október fannst stjórninni að Ancelotti væri ekki að taka á vandamálunum. Hugmyndin um að félagið þyrfti að taka nýja stefnu í þjálfaramálum fór að festa rætur."

Ancelotti hefur á ferli sínum mögulega ekki þurft að glíma við erfiðari klefa að sögn Balague. Lykilmenn hættu að hlusta á hann og stjörnurnar Vinicius og Mbappe vildu báðir vera aðalmennirnir og andlit liðsins.

„Það voru engin opinber átök milli Vinicius og Mbappe en togstreitan sást á vellinum. Á mikilvægum augnablikum leituðu þeir ekki hvor til annars; starfsfólk og liðsfélagar skynjuðu spennuna þeirra á milli greinilega," segir Balague.

„Ancelotti, sem er þekktur sem meistari í að stýra stórstjörnum, viðurkenndi í einrúmi að þetta væri einn erfiðasti búningsklefi sem hann hafi kynnst."
Athugasemdir
banner
banner