Mikel Arteta hefur verið duglegur að tjá sig í fjölmiðlum eftir tap Arsenal gegn Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöldið.
Arteta telur að Arsenal hafi átt skilið að sigra einvígið gegn PSG en segist átta sig á því að fótbolti er óvægin íþrótt.
„Þetta var ein sárasta og stoltasta stund sem ég hef upplifað sem þjálfari Arsenal. Við vorum betri en unnum ekki og þannig virkar fótbolti. Þetta snýst ekki um sigurlíkur heldur snýst þetta um að skora mörkin þegar það skiptir máli," sagði Arteta á fréttamannafundi í dag.
„Við þurfum að hækka sigurlíkurnar ennþá meira fyrir næsta tímabil. Við verðum að samþykkja að það var ekki nóg að vera betra liðið, það var ekki nóg að kæfa þá eins og við gerðum. Svona er fótbolti. Þið sáuð það í Inter-Barcelona leikjunum, það hefði enginn í heiminum getað spáð fyrir um þessi úrslit, hvernig mörkin voru skoruð eða hver skoraði mörkin. Það hefði verið ómögulegt.
„Að sama skapi átti (Achraf) Hakimi ekki að skora gegn okkur í seinni undanúrslitaleiknum því hann átti að vera í leikbanni. Hann átti að vera rekinn útaf í fyrri leiknum og þá hefði hann aldrei spilað seinni leikinn og skorað. Það er mjög mikið af svona handahófskenndum atriðum sem hafa áhrif á úrslit fótboltaleikja."
Arsenal heimsækir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og munu leikmenn standa heiðursvörð fyrir nýkrýnda Englandsmeistara.
Athugasemdir