De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   fös 09. maí 2025 10:21
Elvar Geir Magnússon
Hvetur fólk til að fara á leiki í Grindavík - „Öryggi allra er tryggt“
Lengjudeildin
Stuðningsmenn Grindavíkur á lék fyrir tveimur árum.
Stuðningsmenn Grindavíkur á lék fyrir tveimur árum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Birgir Jóhannsson.
Birgir Jóhannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Búið er að girða yfir hættusvæði.
Búið er að girða yfir hættusvæði.
Mynd: Skjáskot
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, segir að það sé algjörlega öruggt fyrir lið og stuðningsmenn að fara á leiki í Grindavík í sumar. Hann hvetur fólk til að gera sér ferð á leiki í bænum en fyrsti heimaleikur Grindavíkurliðsins í Lengjudeild karla verður gegn Fjölni á morgun.

„Öryggi fólks er svo sannarlega tryggt. Við sátum fund með okkar færustu vísindamönnum og sérfræðingum. Það er búið að grandskoða og skanna allt svæðið í kringum völlinn ítarlega og margoft," segir Birgir.

Gefið hefur leyfi á að spilað sé í bænum og Birgir segir að svona ákvarðanir séu ekki teknar ef það væri einhver minnsta óvissa í gangi.

Búið að skoða allt gaumgæfilega
Vísir lét framkvæma könnun meðal félaga í deildinni. Flest treysta þau mati Almannavarna varðandi öryggi en tvö þeirra gerðu hinsvegar athugasemdir og segja að stuðningsmenn séu efins um að fylgja liðinu til Grindavíkur við núverandi aðstæður.

Í svari annars félagsins segir að það hljóti að teljast umhugsunarefni hvort virkilega sé ástæða til að safna saman hundruðum manna til þess að spila og horfa á fótbolta á meðan atburðunum er enn ólokið.

„Það er búið að skoða allt saman gaumgæfilega og gera ráðstafanir varðandi allt. Það er búið að girða vel yfir hættusvæði í bænum og setja net á sprungur. Það þyrfti einbeittan brotavilja til að koma sér í hættu þarna. Grindavíkurbær hefur verið opinn almenningi síðan í október," segir Birgir en sérstakir öryggisfulltrúar verða á staðnum þegar leikið er.

Eins og áður segir gefa stjórnvöld grænt ljós á að spilað verði í Grindavík en Birgir segir að ef staðan í bænum breytist verði það að sjálfsögðu endurskoðað. Nú sé allavega fullkomlega öruggt að heimsækja Grindavík og hvetur hann fólk til að mæta á leikinn á morgun.

„Þetta verður tilfinningarík stund fyrir Grindvíkinga sem hafa gengið í gegnum mikið. Knattspyrnudeildin hefur farið í gegnum mjög erfiða tíma og misst mikilvæga styrktaraðila. Ég vil bara hvetja fólk til að mæta á leiki þarna og hreinlega gera fjölskylduferð úr þessu. Það er mögnuð upplifun og áhugavert að koma inn í bæinn og sjá breytingarnar sem hafa orðið," segir Birgir sem ætlar sjálfur að taka fjölskylduna með á völlinn á morgun.
Athugasemdir
banner
banner