lau 10. júní 2023 16:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Besta deildin: Landsliðsþjálfarinn sá frábæran leik í Kaplarika
Víkingar geta náð sjö stiga forskot á Blika með sigri á morgun
Davíð Snær Jóhannsson skoraði bæði mörk FH.
Davíð Snær Jóhannsson skoraði bæði mörk FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tapaði mikilvægum stigum í titilbaráttunni.
Breiðablik tapaði mikilvægum stigum í titilbaráttunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH 2 - 2 Breiðablik
0-1 Stefán Ingi Sigurðarson ('14 )
0-2 Viktor Karl Einarsson ('17 )
1-2 Davíð Snær Jóhannsson ('34 )
2-2 Davíð Snær Jóhannsson ('54 )
Lestu um leikinn

Landsliðsþjálfarinn Age Hareide horfði á stórkostlegan fótboltaleik í Kaplakrika í dag, en hann mætti á leik FH og Breiðabliks í Bestu deildinni.

Það var kraftur í FH-ingum í byrjun, en Breiðablik skoraði fyrstu tvö mörk leiksins. Stefán Ingi Sigurðarson gerði fyrsta markið og bætti Viktor Karl Einarsson við marki stuttu síðar.

Heimamenn unnu sig hægt og bítandi aftur inn í leikinn eftir þetta þunga högg frá Blikum, en þeim tókst að minnka muninn á 34. mínútu þegar Davíð Snær Jóhannsson skoraði eftir mistök Stefáns Inga.

Staðan í hálfleik var 1-2 fyrir Blika en FH jafnaði snemma í seinni hálfleik og aftur var það Davíð Snær sem skoraði. Blikar voru klaufar í markinu og klaufar að missa frá sér tveggja marka forskot.

Kjartan Henry Finnbogason kom inn í seinni hálfleiknum og hann var fljótur að láta til sín taka. Um 60 sekúndum eftir að hann kom inn á, þá átti hann mögulega að fá rautt spjald þegar hann skallaði til Damir Muminovic, varnarmanns Blika. Báðir fengu þeir gult spjald.

Það var mikill hiti og mikill æsingur í þessum leik og gaman var að fylgjast með honum. FH-ingar eru líklega pirraðir að hafa ekki tekið sigurinn þar sem Anton Ari Einarsson varði mjög vel í tvígang í síðari hálfleiknum.

Lokatölur 2-2 í hörkuleik í Kaplakrika en FH virðist vera að finna góðan takt undir stjórn Heimis Guðjónssonar. Þetta er allavega mun betra en á síðustu leiktíð. FH er í fjórða sæti með 18 stig og Breiðablik er í öðru sæti með 24 stig.

Víkingar geta á morgun náð sjö stiga forskoti á Blika með sigri gegn Fram.
Útvarpsþátturinn - Age Hareide í hljóðveri
Athugasemdir
banner
banner
banner