Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 10. júlí 2019 11:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sigurbjörn telur forskotið lítið sem ekkert: Eru þaulvanir þessu
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson.
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn segir að mikil tilhlökkun sé í hópnum.
Sigurbjörn segir að mikil tilhlökkun sé í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur mætir inn í leikinn í kvöld með þrjá sigurleiki á bakinu.
Valur mætir inn í leikinn í kvöld með þrjá sigurleiki á bakinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er algjör stórleikur, það er hárrétt hjá þér. Mér líst frábærlega á þetta einvígi," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, í samtali við Fótbolta.net.

Valur mætir í kvöld slóvenska liðinu Maribor í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Þetta eru engir aukvissar sem Valur er að mæta. FH mætti Maribor 2017 en slóvensku meistararnir unnu báða leikina 1-0 og einvígið samtals 2-0. Liðið komst svo í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Þetta er atvinnumannalið og sigursælasta liðið í Slóveníu. Þeir eru með rosalega Evrópureynslu, þeir kunna þetta alveg. Þetta er vel skipulagt lið með öflugum leikmönnum inn á milli sem geta breytt gangi leiksins upp á eigin spýtur."

„Við erum líka komnir með góða reynslu í þessum keppnum eftir mörg einvígi undanfarin ár. Við teljum okkur vera vel í stakk búnir til að mæta þessu liði," sagði Sigurbjörn.

Forskot að deildin sé ekki byrjuð í Slóveníu?
Deildin er ekki byrjuð í Slóveníu og hefur Maribor bara leikið undirbúningsleiki upp á síðkastið.

„Við höfum aðeins kíkt á þá. Þeir eru ekki byrjaðir á sínu tímabili og eru bara búnir að spila undirbúningsleiki. Þeir hafa verið að þróa hitt og þetta, marga leikmenn og svona. Það er erfitt að rýna nákvæmlega í það. Þeir byrja sína deildarkeppni á milli leikjana okkar."

Er það forskot fyrir Val að deildin hérna á Íslandi sé í fullum gangi en deildin í Slóveníu sé ekki byrjuð?

„Forskot og ekki forskot. Það er alltaf spurning. Þeir eru alveg klárir í 90 mínútna leik. Það er bara spurning hvernig menn mæta til leiks. Þetta er atvinna þeirra og þeir þurfa yfirleitt að byrja á hverju ári svona. Þeir eru þaulvanir þessu og þeir vita hvernig á að undirbúa sig. Forskotið er ekkert. Við eigum bara heimaleik og við erum sterkir heima, og erum með gott lið og höfum trú á okkur."

Nýtt ár og ný keppni
Valur er með gott lið og getur staðið í þeim liðum sem eiga að teljast betri. Í fyrra var liðið ekki svo langt frá því að slá út norska stórliðið Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar. Í því einvígi var Valur á leiðinni áfram þegar uppbótartíminn hófst, en í uppbótartímanum fékk Rosenborg gefins vítaspyrnu frá dómaranum.

Dómarinn í seinni leiknum var vægast sagt ömurlegur.

„Við áttum gott einvígi þá og við vorum áfram eftir 94 mínútur í seinni leiknum á móti Rosenborg. En við duttum út þar og vorum óheppnir á móti Sheriff (í Evrópudeildinni). Það var svekkjandi að komast ekki lengra í fyrra því við áttum það skilið."

„En það var síðasta ár og núna er nýtt ár, ný keppni og nýir mótherjir. Við erum hvergi bangnir og við erum tilbúnir. Alla hlakkar gríðarlega til að spila þennan leik í kvöld."

Þjappar hópnum enn betur saman
Síðustu dagar hafa verið góðir fyrir Val. Liðið hefur unnið þrjá leiki í röð í Pepsi Max-deildinni eftir erfiða byrjun og er danski framherjinn Patrick Pedersen kominn aftur til liðsins. Það er frábært fyrir Val enda var hann besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra.

„Úrslitin hafa tikkað inn undanfarið og við erum að bæta okkar leik. Menn eru að ná vopnum sínum og það er frábært að spila þétt. Núna komar nokkrar vikur þar sem við erum í Evrópukeppni og þá eru menn meira saman og það þjappar hópnum enn betur saman," segir Sigurbjörn og bætir við:

„Við sjáum fram á bjarta tíma."

Leikur Vals og Maribor hefst í kvöld klukkan 20:00 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner