Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   fim 11. apríl 2024 15:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Gummi Kristjáns: Eftir einn leik er erfitt að hugsa fram í október
Stórleikur Stjörnunnar og KR á morgun
Guðmundur Kristjánsson í fyrsta leiknum gegn Víkingi.
Guðmundur Kristjánsson í fyrsta leiknum gegn Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir fyrsta leikinn á tímabilinu gegn Stjörnunni.
Fyrir fyrsta leikinn á tímabilinu gegn Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næsti leikur Stjörnunnar er gegn KR.
Næsti leikur Stjörnunnar er gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við setjum pressu á okkur sjálfa og erum að hugsa um að fá þá frammistöðu sem við viljum fá'
'Við setjum pressu á okkur sjálfa og erum að hugsa um að fá þá frammistöðu sem við viljum fá'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Stjarnan mætir KR annað kvöld.
Stjarnan mætir KR annað kvöld.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Ég reikna með skemmtilegum leik. KR-ingarnir eru með fullt af fljótum og öflugum leikmönnum, og við líka. Ég vona að þetta verði opinn og skemmtilegur leikur, fjör fyrir áhorfendur. Er það ekki það sem við viljum öll? Skemmtilegur fótbolti og nóg af mörkum," segir Guðmundur Kristjánsson, leikmaður Stjörnunnar í samtali við Fótbolta.net.

Á morgun spilar Stjarnan sinn annan leik í Bestu deildinni í sumar er þeir mæta KR. Það verður fyrsti heimaleikur Stjörnunnar í sumar.

Úrslitin og frammistaðan hefðu mátt vera betri
Stjarnan spilaði gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings í opnunarleik Bestu deildarinnar síðasta laugardag. Stjarnan fann sig ekki alveg í þeim leik og tapaði 2-0.

„Þetta voru ekki úrslitin sem við hefðum viljað og frammistaðan hefði mátt vera betri líka," segir Gummi. „Það var eitthvað gott í leiknum en margt sem við sjáum að við þurfum að laga. Það er fínt að þetta sé komið í gang."

Þú færð ekki erfðari opnunarleik en Víking á útivelli.

„Það var stemning að byrja í Víkinni. Hvort við spilum við þá núna eða seinna, það skiptir ekki öllu máli. Mér fannst fínt að fá þá núna og miða okkur aðeins við þá. Það var margt sem við hefðum getað gert töluvert betur í þeim leik og vonandi náum við að laga það fyrir leikinn á morgun."

„Við hefðum mátt vera aðeins skarpari fyrir framan markið og í uppspilinu. Með smá breytingum á því sem við vorum að gera, þá hefðum við getað leyst þetta mjög vel. Það er jákvætt að það þarf ekki mikið upp á. Við þurfum að breyta nokkrum hlutum. Það er jákvætt að sjá að á ekkert frábærum degi stöndum við ekkert langt frá þeim. Ég hlakka til að mæta þeim aftur. Við áttum ágætis spilkafla inn á milli og við erum flottari á móti þeim þegar við erum í maður á mann vörn í seinni hálfleik. Það eru smá breytingar á hinu og þessu, og þá erum við í fínum málum."

KR annað kvöld
Annað kvöld spilar Stjarnan við KR á Samsungvellinum. KR vann 3-4 sigur á Fylki í fyrstu umferð og leikurinn á morgun verður eflaust mjög svo áhugaverður.

„Það verkefni leggst vel í mig. Þeir eru aðeins öðruvísi lið en Víkingarnir og það verður öðruvísi leikur. Þeir virkuðu beinskeyttir í fyrsta leik og það verður gaman að taka á móti þeim. Við spiluðum á móti þeim á undirbúningstímabilinu og það var hörkuleikur. Ég reikna með að þetta verði skemmtileg rimma."

Liðin mættust í Lengjubikarnum í vetur og það var hörkuleikur þar sem baráttan var mikiðl.

„Bæði lið voru að prófa nýja hluti í þeim leik og ég veit ekki hversu nákvæma mynd það gefur af því sem koma skal í leiknum á morgun. Það sem einkenndi þann leik svolítið mikið var mikil barátta, rifrildi og hiti. Vonandi verður það þannig á morgun líka. Það er gaman að þannig leikjum þar sem er hiti og ástríða."

Erfitt að hugsa eitthvað fram í október
Varnar- og miðjumaðurinn öflugi er spenntur fyrir fyrsta heimaleik tímabilsins.

„Það er alltaf gaman að spila fyrsta heimaleikinn hvert sumar. Maður skynjar það í kringum félagið að það er mikil tilhlökkun fyrir leiknum. Miðasalan er góð hingað til. Það er einhvern veginn allt annað að spila heima heldur en úti. Það er öðruvísi andrúmsloft. Það verður hrikalega skemmtilegt; vonandi náum við að fá ógeðslega mikið af fólki á völlinn og gerum alvöru stemningu í kringum þetta," segir Gummi.

Stjarnan fær mjög erfitt prógramm í byrjun deildarinnar. Fyrst var það Víkingur og svo eru næstu tveir leikir gegn KR og Val. Er mikil pressa á Stjörnuliðinu í upphafi móts?

„Við setjum pressu á okkur sjálfa og erum að hugsa um að fá þá frammistöðu sem við viljum fá. Ég hef engar áhyggjur af úrslitunum ef við spilum þann leik sem við viljum spila. Þá skila úrslitin sér. Ef við spilum okkar besta leik, þá hef ég engar áhyggjur. Við setjum pressu á okkur sjálfa og horfum mest í það. Hverjir aðrir setja pressu á okkur, það veit ég ekki. Ég er lítið að fylgjast með því," segir Gummi en er það áhyggjuefni ef Stjarnan tapar á morgun og verður þá sex stigum á eftir efstu liðunum?

„Ég er ekkert að hugsa um það hvað gerist ef við töpum leiknum. Ég er bara að hugsa um að spila hann. Það er fyndið að á hverju ári þegar einn leikur er búinn í deildinni, að þá er strax farið að tala um pressu varðandi hitt og þetta. Mótið er nýfarið af stað. Við erum að hugsa glasið hálffullt frekar en glasið hálftómt í byrjun móts. Við stefnum auðvitað á að vinna þennan leik. Eftir einn leik í deildinni er erfitt að hugsa eitthvað fram í október. Þú verður bara að hugsa um næsta leik," sagði Gummi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner