Andre Wisdom þótti gríðarlega efnilegur varnarmaður á sínum tíma þegar hann kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Liverpool eftir að hafa alist upp hjá Bradford.
Wisdom var lykilmaður í unglingalandsliðum Englands en náði aldrei að festa sig í sessi hjá Liverpool og var að lokum seldur til Derby County. Hann var fyrirliði í U21 landsliði Englands og skoraði í sínum fyrsta keppnisleik með aðalliði Liverpool þegar hann var aðeins 19 ára gamall.
Hann fékk meiri spiltíma hjá Derby en einn daginn hélt hann aftur til Liverpool að hitta fjölskyldu sína og var hann stunginn um nóttina á leið úr skemmtun. Wisdom var á leið í íbúðina sína eftir gleðskap þegar ráðist var að honum til að stela úri og hann stunginn.
Wisdom virtist þó jafna sig vel eftir árásina. Hann var fastamaður í byrjunarliði Derby tímabilið 2020-21 en var látinn fara þegar samningurinn hans rann út vegna fjárhagsvandræða félagsins.
Hann fann sér ekki nýtt félag þrátt fyrir að fara í viðræður og á reynslu hjá liðum í Championship-deildinni. Andlega og líkamlega áfallið eftir stunguárásina var enn að hrjá hann.
„Hver veit hvar ég væri að spila í dag ef ég hefði ekki lent í þessari stunguárás. Ég myndi ekki segja að þetta kvöld hafi eyðilagt ferilinn minn, en það breytti honum til muna," sagði Wisdom í viðtali við BBC Sport.
„Ég finn fyrir sársauka í líkamanum eftir þessa árás enn þann dag í dag. Ég átti ekki að vera þarna, á þessum stað á þessum tíma. Þetta var í miðjum COVID-faraldri og ég þráði fátt heitar en að komast út til að hitta fólk og skemmta mér aðeins."
Kvöldið áður en stunguárásin átti sér stað var Wisdom í byrjunarliði Derby í mikilvægum sigri gegn Reading í umspilsbaráttunni í Championship deildinni.
„Ég átti að vera heima að jafna mig eftir leikinn, en ég tók í staðinn þá ákvörðun að fara að hitta vini. Ég yfirgaf gleðskapinn einsamall og var á leiðinni í bílinn minn þegar fimm vopnaðir menn mættu mér á götunni. Þeir báðu mig um úrið, ég neitaði og þá brutust átökin út. Ég hafði ekki tíma til að hlaupa í burtu. Ég hefði átt að nota hausinn á þessari stundu en stoltið mitt kom í veg fyrir það.
„Eftir nokkrar mínútur af átökum kom fólk út úr gleðskapnum og árásarmennirnir hlupu í burtu. Þeir skildu mig eftir þakinn blóði en ég stóð upp og keyrði heim. Adrenalínið hélt mér gangandi en um leið og ég kom heim tók ég eftir að ég var með nokkur stungusár á líkamanum. Sárið á lærinu var svo stórt að lærvöðvinn hékk nánast fyrir utan líkamann minn. Það var þá sem ég hringdi á sjúkrabíl."
Auk þess að vera stunginn í vinstra lærið var Wisdom líka stunginn í hausinn, rassinn og bringuna.
Hann er 32 ára gamall og leikur með utandeildarliðinu FC United of Manchester í dag.
03.07.2020 11:26
Alls ekki víst að Wisdom spili meira á tímabilinu eftir stunguárásina
Athugasemdir