Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   mán 12. ágúst 2024 12:05
Elvar Geir Magnússon
Gummi Hreiðars og John O'Shea aðstoða Heimi (Staðfest)
Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson.
Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
John O'Shea aðstoðar Heimi.
John O'Shea aðstoðar Heimi.
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson hefur staðfest það teymi sem verður með honum í þjálfun írska landsliðsins. Þar á meðal er markvarðaþjálfarinn Guðmundur Hreiðarsson.

Þetta er þriðja landsliðið þar sem Heimir og Guðmundur vinna saman hjá en þeir voru hjá Íslandi og Jamaíku.

„Guðmundur hefur verið mikilvægur hluti af þjálfarateymunum í gegnum minn feril og ég er hæstánægður með að hann geti starfað með mér áfram," segir Heimir við heimasíðu írska fótboltasambandsins.

John O'Shea staðfestur sem aðstoðarmaður Heimis
Þá hefur John O'Shea verið staðfestur sem aðstoðarmaður Heimis. Þessi fyrrum varnarmaður Manchester United stýrði írska landsliðinu til bráðabirgða áður en Heimir var ráðinn.

Heimir segir að það hafi verið algjört forgangsmál hjá sér að sannfæra O'Shea um að vera aðstoðarþjálfari sinn. Hann hafi ferðast til að ræða við hann og að hugmyndir þeirra og framtíðarsýn liggi saman.

„Eftir að hafa fengið mér sæti með Heimi og rætt við hann um áætlanir okkar fyrir liðið og hvað hann sér fyrir sér var ég glaður að taka að mér þetta starf," segir O'Shea.

Þá verður Paddy McCarthy í teyminu en hann er einnig í þjálfarateymi Crystal Palace. Hann mun svo koma til móts við írska liðið í landsleikjagluggum.

Írland mætir Englandi og Grikklandi í landsleikjaglugganum í september.

Þetta sagði Heimir um Gumma í nóvember:
„Gummi er einstakur á allan hátt. Hann er góður vinur og skilur mig vel. Það er ofboðslega mikilvægt þegar þú ert í svona umhverfi að hafa einhvern sem þú getur talað við og einhvern sem getur létt á þér," sagði Heimir um Guðmund Hreiðarsson í útvarpsviðtali við Fótbolta.net á síðasta ári.

„Svo sem fagmaður er hann alveg magnaður. Hann kann allt verksviðið. Margir þjálfarar eru bara góðir á einum stað en hans verksvið er svo vítt. Hann er svo góður fagmaður og öllum markvörðum þykir svo vænt um hann. Hann tengist leikmönnum sínum svo vel."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner