Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 13. janúar 2020 21:00
Aksentije Milisic
Bestu leikmennirnir sem geta farið frítt í sumar
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Nokkrir stórir bitar í Evrópuboltanum verða samningslausir eftir tímabilið og geta því farið frítt næsta sumar.

Hér að neðan má sjá 17 manna lista yfir þá stærstu sem verða samningslausir og áhugavert að fylgjast með hvaða lið ná að klófesta þessa menn.

Luka Modric
Luka Modric átti stórkostlegt ár í hittifyrra þegar hann vann Meistaradeildina þriðja árið í röð, leiddi Króatíu í sjálfan úrslitaleikinn á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi og rúsínan í pylsuendanum var síðan sú þegar hann var kjörinn besti leikmaður heims á undan Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Modric er enn lykilmaður hjá Real Madrid en hann hefur verið orðaður við Inter Milan.

Christian Eriksen
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Danans en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Tottenham. Hann tilkynnti það að hann vildi nýja áskorun á ferlinum eftir tapið gegn Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ljóst er að mörg lið vilja fá einn besta miðjumann Evrópu og er Inter Milan talinn líklegur áfangastaður.

David Silva
Eftir tíu ár í treyju Manchester City og fjölda titla er komið að lokum hjá David Silva. Hann hefur tilkynnt að hann yfirgefi félagið eftir þetta tímabil en hann er ennþá mikilvægur leikmaður hjá City. Inter Miami er talið líklegt til að hreppa kappann en hann hefur einnig verið orðaður við lið frá Japan og Qatar. Talið er að hann taki ekki ákvörðun fyrr en eftir tímabilið.

Edison Cavani
Edison Cavani verður samningslaus í sumar en þessi frábæri framherji skoraði 23 mörk fyrir frönsku risanna á síðasta tímabili. Tomas Tuchel, þjálfari PSG, hefur viðurkennt að Cavani gæti verið á förum frá félaginu og þá eru Juventus og Atletico Madrid talin líklegust til að hreppa Cavani.

Willian
Brasilíumaðurinn hefur verið hjá Chelsea síðan 2013 og verið lykilmaður og unnið fjölda titla. Nú gæti verið að þessi 31 árs leikmaður farið að kveðja Chelsea og þar er Juventus mjög áhugasamt um leikmanninn.

Jan Vertonghen
Jan Vertonghen er ásamt Eriksen að renna út af samning og talinn mjög líklegur til þess að yfirgefa Tottenham. Eftir komu Jose Mourinho hefur Vertonghen fengið að verma varamannabekkinn töluvert en hann var líka töluvert bekkjaður hjá Mauricio Pochettino. Þá var talið að hann hafi verið meiddur í byrjun tímabils en hann þvertók fyrir það og sagði það ákvörðun þjálfarans að spila honum ekki.

Pedro
Árið 2018 framlengdi Pedro samning sinn við Chelsea um tvö ár og því er leikmaðurinn að verða samningslaus. Hinn 32 ára gamli Pedro er talinn líklegur til þess að yfirgefa liðið en Frank Lampard, stjóri Chelsea, er að byggja upp nýtt og ungt lið hjá Lundúnarliðinu.

Fernandinho
Brasilíumaðurinn verður samningslaus í sumar en hann gaf þó í skyn á dögunum að hann yrði áfram hjá Manchester City. Hinn 34 ára gamli Fernandinho er ennþá gífurlega mikilvægur leikmaður fyrir City og því áhugavert að sjá hvað gerist í hans málum.

Oliver Giroud
Giroud hefur lítið sem ekkert fengið að spila hjá Chelsea í vetur og því er mjög líklegt að hann yfirgefi félagið. Ef ekki í þessum mánuði þá í sumar þegar hann verður samningslaus. Giroud kom til liðsins frá Arsenal árið 2018 og hefur hann unnið FA Cup og Evrópudeildina með Chelsea.

Mario Gotze
Mikilvægi Mario Gotze hjá Dortmund hefur minnkað með árunum og nú er samningur hans senn á enda. Hann er þó aðeins 27 ára gamall og er þekktastur fyrir að hafa skorað markið fræga fyrir þjóðverja árið 2014 sem tryggði heimsmeistaratitilinn.

Giorgio Chiellini
Juventus goðsöngin Chiellini er að renna út af samningi. Þessi 35 ára varnamaður hefur unnið fullt af titlum með Juventus en hann meiddist illa í byrjun tímabils og talið er að hann gæti yfirgefið liðið í sumar og leitað á ný mið.

Blaise Matuidi
Samningur Matuidi hjá Juventus er að renna út og verður hann samningslaus í sumar. Talið er að Juventus vilji halda leikmanninum og ætli að bjóða honum nýjan samning.

Adam Lallana
Lallana hefur verið mikið meiddur á sínum ferli og breiddin á miðjunni hjá Liverpool hefur þýtt það að Lallana hefur ekki fengið mjög mikið af mínútum. Samningur hans er að renna út en í samningnum er ákvæði um eins árs framlenginu sem gæti verið virkt.

Dries Mertens
Mertens sagði sjálfur ekki fyrir löngu að hann hafi ekki hugmynd um hvar hann muni spila á næsta tímabili. Þessi 32 ára gamli leikmaður hefur verið lykilmaður fyrir Napoli og hafa nokkur lið augastað á honum.

Thomas Meunier
Thomas Meunier hefur vakið athygli margra liða en hann var ekki fastamaður hjá PSG á síðasta tímabili. Hann var nálægt því að skrifa undir hjá Everton síðasta sumar en það gerðist ekki en ljóst er að hann gæti verið á förum næsta sumar.

Thiago Silva
Þessi 35 ára gamli varnamaður er enn einn besti varnarmaður frönsku deildarinnar og hefur hann sýnt fá merki um það að hann sé að gefa eftir. Samningur Silva er þó að renna út og er framtíð hans óljós hjá PSG.

Eric Bailly
Eric Bailly hefur verið mikið meiddur hjá Manchester United og er óljóst hvað leikmaðurinn gerir næsta sumar. Hann meiddist á undirbúningstímabilinu og þá missti hann einnig af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla.
Athugasemdir
banner
banner
banner