Danski varnarmaðurinn Alexander Scholz sló í gegn með Stjörnunni síðastliðið sumar. Belgíska félagið Lokeren keypti Scholz í kjölfarið og hann hefur byrjað vel þar.
,,Ég var heppinn að spila frá byrjun og ég er að njóta þess," sagði Scholz í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum.
Scholz spilaði bæði á miðjunni og í vörninni hjá Stjörnunni en nú einbeitir hann sér að einni stöðu. ,,Ég spila bara sem miðvörður í Belgíu. Ég tel að það sé mín besta staða. Þetta er líka framtíðarstaða mín hér í Belgíu."
Nokkrir Íslendingar hafa leikið með Lokeren í gegnum tíðina og menn þar á bæ muna vel eftir þeim.
,,(Arnar) Grétarsson og (Rúnar) Kristinsson spiluðu hér. Sumir starfsmennirnir muna eftir þeim og þeir hafa gott orðspor hér."
Scholz spilaði gegn Eiði Smára Guðjohnsen í leik gegn Club Brugge á dögunum.
,,Það hefur verið gaman að mæta íslenskum leikmönnum. Það var gaman að mæta Eiði Guðjohnsen. Hann er besti leikmaður Íslands frá upphafi og það var ótrúlegt að fara úr því að tala um hann á Íslandi yfir því að spila gegn honum. Það gekk vel, ég náði að halda honum ágætlega niðri og við náðum 1-1 jafntefli."
Scholz segist fylgjast mjög vel með gangi mála hjá sínum gömlu félögum í Stjörnunni.
,,Ég fylgist vel með þeim. Ég tala við strákana nokkrum sinnum í viku á Facebook og ég ætla að koma í heimsókn í að minnsta kosti viku þegar við fáum frí í maí. Ég er byrjaður að leita að útsendingum á netinu og vonandi verða allir leikirnir sýndir í sumar svo ég geti fylgst með þeim hér."
,,Ég hef góða tilfinningu fyrir tímabilinu hjá Stjörnnunni. Leikmennirnir sem Stjarnan hefur fengið eru mjög góðir. Veigar Páll og dönsku leikmennirnir geta bætt liðið. Þetta eru leikmenn sem eru góðir fyrir liðið. Stjarnan hefur ekki misst neina leikmenn og ég vona að þetta verði gott tímabil þannig að liðið geti fengið þau verðlaun sem það á skilið," sagði Scholz.
Hér að ofan má hlusta á viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir




