Hollendingurinn Marten de Roon, leikmaður Atalanta, átti góðan leik á Anfield í fyrradag þegar ítalska liðið gerði sér lítið fyrir og skellti Liverpool með þremur mörkum gegn engu.
Þetta var fyrri leikur liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar og er Atalanta því í góðum málum fyrir síðari leik liðanna í Bergamó þann 18. apríl.
Það er alltaf stutt í grínið hjá de Roon en hann er virkur á samfélagsmiðlum. Eftir þennan frábæra sigur á Anfield setti leikmaðurinn inn skemmtilega færslu þar sem hann sagðist geta fagnað sigrinum með stæl.
„Þetta var ótrúlegt kvöld, 0-3 á Anfield, þetta er ekki draumur,” sagði de Roon.
„Ég er í leikbanni gegn Verona í þessari umferð sem þýðir að ég get fagnað sigrinum gegn Liverpool með bjór og vínglasi!” skrifaði kappinn.
Atalanta mætir Verona í Serie A deildinni á mánudaginn kemur en liðið er í Evrópubaráttu í deildinni á meðan Verona er að berjast í fallbaráttunni.