Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 13. maí 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Æðislegt en líka yfirþyrmandi fyrir unga manneskju á þessum tímum
Kominn aftur í búning ÍBV.
Kominn aftur í búning ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Clara lék alla sextán leiki Selfoss í deildinni í fyrra
Clara lék alla sextán leiki Selfoss í deildinni í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Selfossi
Í leik með Selfossi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Clara vann Meistarakeppni KSÍ með Selfossi í fyrra.
Clara vann Meistarakeppni KSÍ með Selfossi í fyrra.
Mynd: Guðmundur Karl
Clara í unglingalandsliðsverkefni
Clara í unglingalandsliðsverkefni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Auður Scheving
Auður Scheving
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristjana Rún
Kristjana Rún
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Clara Sigurðardóttir gekk aftur í raðir ÍBV eftir að hafa leikið með Selfossi í eitt tímabil í fyrra.

Clara er mjög efnilegur miðjumaður sem á metið yfir flesta leiki fyrir U17 ára landslið Íslands, alls lék hún 29 slíka. Clara varð nítján ára í janúar á þessu ári.

Hún var í áhugaverðu viðtali fyrir tímabilið í fyrra sem lesa má hér að neðan:

Settu sig í samband við Clöru á samfélagsmiðlum sem var „óþægilegt og í raun fráhrindandi"

Fréttaritari hafði samband við Clöru á dögunum og spurði hana út í heimkomuna til Vestmannaeyja og ýmislegt annað.

Enn þakklátari fyrir fjölskylduna, vini og Vestmannaeyjar
Hvernig horfiru til baka á síðasta tímabil með Selfossi? Varstu persónulega sátt með eigin frammistöðu? Voru vonbrigði að enda ekki ofar í deildinni?

„Tími minn síðasta tímabil á Selfossi var frábær, það var gott tækifæri fyrir mig að spila þar með geggjuðum leikmönnum og prófa eitthvað nýtt."

„Ég var sátt með frammistöðuna mína, auðvitað hefðum við viljað vera Íslandsmeistarar og allt það en það er erfitt að ætla sér stóra hluti miðað við það að við vorum margar að spila saman í fyrsta skipti og vorum nokkuð margar nýjar í liðinu,"
sagði Clara.

Varstu í heild sinni sátt með dvölina á Selfossi?

„Í heildina var ég mjög sátt með tímann minn á Selfossi og er ég reynslunni ríkari eftir að hafa prófað þetta. Þetta sýnir manni líka bara hvað maður hefur það gott en líka hvað er mikilvægt að prófa einhvað nýtt og kynnast fleira fólki og gerir mann bara enn þakklátari fyrir fjölskyldu sína, vini og Vestmannaeyjar."

Æðislegt en líka yfirþyrmandi fyrir unga manneskju á þessum tímum
Af hverju ertu komin aftur til ÍBV?

„Í covid ástandinu fannst mér erfitt að vera á Selfossi þegar varla mátti æfa og ekki æfa, ekki mæta í skólann og allt var einhvern veginn spurningamerki vegna ástandsins í heiminum."

„Þegar mér bauðst að fara í Selfoss var eiginlega ekki hægt að neita því tækifæri, bæði að prófa eitthvað nýtt og svo leist mér svo vel á bæði leikmennina og þjálfarateymið."

„Það er meira en að segja það að skipta um lið þá sérstaklega þegar maður býr úti á landi, þú ert ekki bara að mæta á æfingar með öðrum leikmönnum og hjá öðru félagi og svo framvegis. Heldur þarf maður að flytja frá fjölskyldu og vinum, skipta um skóla og allt í einu var ég bara farin að elda, sjá um innkaupin, gera upp herbergi og fleira sem er náttúrulega bara æðislegt en líka alveg yfirþyrmandi 17 ára sérstaklega á þessum tímum."

„Ég er að útskrifast í vor og var ekki tilbúin að fara í enn einn nýja skólann til að klára það og covid málin spurningamerki, þess vegna fannst mér best að snúa heim, útskrifast með vinum mínum og fleira."


Finnuru fyrir einhverri breytingu á ÍBV frá því þú fórst fyrir ári síðan?

„Að mínu mati eru miklar breytingar hjá ÍBV, bara jákvæðar breytingar það er verið að gera svaka búningsklefa með geggjaðri aðstöðu, umgjörðin að verða betri og bara virkilega góð stemning yfir öllum. Það hafa ýmis tækifæri dúkkað upp en ég ætla að klára þetta tímabil og svo sjáum við til hvað ég geri."

Virðast vera smeykar að fara frá meginlandinu
Hvernig líst þér á tímabilið? Hvernig hefur veturinn gengið?

ÍBV er með þrjú stig eftir tvo heimaleiki. Liðið tapaði gegn Þór/KA í 1. umferð en vann mjög öflugan 4-2 sigur gegn Breiðabliki í vikunni.

„Ég er bara vægast sagt spennt fyrir tímabilinu, eigum við ekki að segja að veturinn hafi verið fínn. Við erum með nokkrar Eyjastelpur sem æfum saman svo fáum við marga útlendinga til að styrkja okkur."

„Það er ekkert leyndarmál, annars næðum við einfaldlega ekki í lið þar sem við erum staðsett á lítilli eyju og íslenskar fótboltakonur virðast vera smeykar að fara frá meginlandi."

„Við vorum gríðarlega heppnar með útlendingana sem við fengum til okkar bara virkilega skemmtilegur hópur og vel spilandi þegar við klikkum saman."


Finnst þér þið getað endað mun ofar en í 7. sæti?

„Ef við spilum okkur saman gætum við komið á óvart."

Virkilega skemmtilegar og báðar miklir karakterar
Þær Kristjana Rún Sigurz Kristjánsdóttir og Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving eru aftur á láni hjá ÍBV á þessari leiktíð. Hvað gera þær fyrir liðið?

„Kristjana Rún og Auður eru báðar geggjaðar. Virkilega skemmtilegar og báðar miklir karakterar. Það er mikilvægt fyrir ÍBV liðið að hafa þær því þær eru góðar upp á liðsheildina, móralinn, báðar eru þær góðar í fótbolta og þurfum við á þeim að halda."

„Það er gott fyrir unga og efnilega leikmenn að koma hingað og fá að blómstra í Eyjum. Fá meiri spilatíma og reynslu í staðinn fyrir kannski að týnast einhvers staðar."


Væri auðvitað skemmtilegt að vera valin
Ertu með það sem eitthvað markmið að gera tilkall að sæti í EM hópnum á næsta ári eða er það bara eitthvað sem þú ert ekkert að pæla í?

„Ég einbeiti mér alltaf að því að gera mitt besta ef það leiðir til þess að vera einhverntíman valin í hóp væri það auðvitað virkilega skemmtilegt og krefjandi verkefni."

Æfði hjá liði í Evrópu í byrjun árs
Ertu með einhver markmið um að fara erlendis að spila? Ef, þá hvenær?

„Ég fór á æfingar hjá liði Í evrópu í byrjun árs og var að spá í að fara í framhaldsnàm þar en þetta covid var að flækjast mikið fyrir. Ég þurfti að fara í sóttkví í báðum löndum missti mikið úr skóla við það og ýmis flækjustig og ákvað því eins og fyrr segir að einbeita mér að því bara að klára þetta tímabil, útskrifast og spá svo í þetta."

Vildu flytja til baka og opnuðu veitingastaðinn GOTT
Að lokum spurning sem tengist viðtalinu í fyrra. Clara byrjaði að æfa fótbolta með FH í Hafnarfirði og æfði einnig með Haukum áður en fjölskyldan hélt til Vestmannaeyja.

En hvers vegna flutti fjölskyldan?

„Foreldrar mínir eru bæði fædd og uppalin i Eyjum og vildu flytja aftur til baka og opna veitingastað í Eyjum. Þau gerðu það, opnuðu veitingastaðinn GOTT og hér býr allt okkar fólk. Svo er líka bara frábært að alast upp hérna," sagði Clara að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner