fös 13. maí 2022 20:14
Victor Pálsson
Fjórar stöður sem Arsenal þarf að styrkja í sumar
Mynd: EPA

Arsenal þarf að styrkja sig á fjórum stöðum í sumarglugganum ef liðið ætlar að berjast ofar í töflunni á næstu leiktíð.


The Mirror fjallar um þetta mál en í grein Dan Marsh bendir hann á fjórar stöður þar sem Arsenal þarf að styrkja sig og það strax.

Fyrsta staðan sem Marsh talar um er miðvörður en Arsenal keypti Ben White frá Brighton fyrir tímabilið á 50 milljónir punda.

Rob Holding er hins vegar ekki nógu traustur í hjarta varnarinnar ásamt Gabriel. Arsenal á þó von á William Saliba til baka úr láni í sumar og þarf hann að vera á undan Holding í goggunnarröðinni.

Vinstri bakvarðarstaðan er einnig staða sem Arsenal þarf að skoða en Nuno Tavares hefur ekki heillað marga síðan hann kom í fyrra.

Aaron Hickey hjá Bologna er orðaður við Arsenal en hann er 19 ára gamall og gæti kostað um 17 milljónir punda. Kieran Tierney er aðal vinstri bakvörður Arsenal en Tavares hefur ekki reynst nógu góður varakostur.

Einnig fjallar hann um hægri bakvarðarstöðuna þar sem Takehiro Tomiyasu var fenginn til að spila en hann hefur þurft að leysa ýmsar stöður á tímabilinu og þar á meðal vinstri bakvörð. Portúgalinn Cedric hefur ekki reynst nógu traust varaskeifa og gæti Tariq Lamptey, leikmaður Brighton, verið spennandi kostur í staðinn.

Þá er það alveg á hreinu að Arsenal þarf að bæta við sig sóknarmanni en félagið missti Pierre Emerick Aubameyang til Barcelona í janúar.

Alexandre Lacazette og Eddie Nketiah eru ekki nógu sannfærandi í markaskorun og ætti Arsenal að reyna allt til að fá Gabriel Jesus frá Manchester City.

Þessi grein er skrifuð eftir leik Arsenal í gær sem tapaðist 3-0 gegn Tottenham þar sem Holding fékk til að mynda rautt spjald eftir 33 mínútur.


Athugasemdir
banner
banner
banner