Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mán 13. maí 2024 21:10
Brynjar Ingi Erluson
England: Varamaðurinn Durán bjargaði stigi fyrir Villa - Tottenham getur blandað sér í baráttuna
John Durán skoraði tvö eftir að hafa komið inn af bekknum
John Durán skoraði tvö eftir að hafa komið inn af bekknum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Aston Villa 3 - 3 Liverpool
0-1 Emilano Martinez ('2 , sjálfsmark)
1-1 Youri Tielemans ('12 )
1-2 Cody Gakpo ('23 )
1-3 Jarell Quansah ('48 )
2-3 Jhon Jader Duran Palacio ('85 )
3-3 Jhon Jader Duran Palacio ('88 )

Aston Villa og Liverpool gerðu ótrúlegt 3-3 jafntefli í 37. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Villa Park í kvöld. Varamaðurinn Jhon Duran sá til þess að Villa tapaði ekki leiknum, en úrslitin samt sem áður svekkjandi fyrir Villa í Meistaradeildarbaráttunni.

Það byrjaði allt á afturfótunum hjá Aston Villa, sem fékk á sig mark eftir tæpar tvær mínútu. Harvey Elliott átti fyrirgjöf sem fór af varnarmanni og í átt að marki Villa. Það leit út fyrir að Emiliano Martínez væri með allt á hreinu í markinu, en svo var ekki og missti hann boltann klaufalega inn í eigið mark.

Heimamenn voru ekki lengi að svara. Youri Tielemans skoraði á 12. mínútu eftir vafasaman varnarleik Liverpool. Ollie Watkins komst vinstra megin inn í teiginn, lagði hann út á dauðafrían Tielamans sem hafði allan tímann í heiminum til að velja sér horn. Hann setti hann niðri, þar sem flestir leikmenn Liverpool voru staddir og skoraði.

Liverpool komst aftur í forystu á 23. mínútu. Joe Gomez átti skot sem Martínez varði til hliðar og á Cody Gakpo sem skoraði af stuttu færi.

Villa-menn hefðu getað farið inn í hálfleikinn í jafnri stöðu en Diego Carlos sagði einfaldlega nei.

Leon Bailey fékk boltann hægra megin í teignum, kom með boltann í gegnum alla vörn Liverpool. Carlos mætti á ferðinni og ætlaði að rennitækla hann í netið af einhverjum 50 sentimetrum, en setti boltann framhjá. Ótrúlegt klúður og eiginlega verra að Ollie Watkins var við hlið Carlos í mun betra færi.

Liverpool refsaði fyrir það. Snemma í síðari hálfleiknum skoraði Jarell Quansah sitt fyrsta deildarmark fyrir Liverpool með skalla upp í samskeytin vinstra megin eftir aukaspyrnu Harvey Elliott.

Villa taldi sig hafa minnkaði muninn nokkrum mínútum síðar er Ollie Watkins setti boltann í netið, en Bailey, sem átti stoðsendinguna, var rangstæður í aðdragandanum og markið dæmt af.

VAR tók einnig mark af Liverpool. Luis Díaz keyrði í gegn, setti boltann til hliðar. Elliott og Salah fóru báðir í boltann og komu honum í netið, en Díaz var rangstæður í aðdragandanum.

Á lokamínútum leiksins komst Villa betur inn í leikinn eftir mistök Alexis Mac Allister. Hann átti slæma móttöku á boltanum, rétt fyrir utan teig Liverpool og nýtti Villa sér það. Calum Chambers kom boltanum á varamanninn Jhon Durán sem þrumaði honum neðst í hægra hornið.

Þetta kveikti í Villa-mönnum sem jöfnuðu leikinn nokkrum mínútum síðar. Moussa Diaby átti fasta sendingu, sem hefði verið erfitt fyrir hvaða framherja sem er að stjórna, en Duran var ekkert að flækja hlutina. Hann setti boltann í fyrsta á lofti og í hægra hornið. Stórglæsileg afgreiðsla.

Á síðustu mínútunum vildu leikmenn Villa fá vítaspyrnu. Pau Torres taldi Virgil van Dijk hafa handleikið boltann, en engin vítaspyrna dæmd.

Ótrúleg endurkoma Villa sem tekur stig úr þessari viðureign, sem er vissulega betra en ekkert. Þessi úrslit koma samt Tottenham aftur inn í Meistaradeildarbaráttuna, sem er aðeins fimm stigum á eftir Villa og með leik til góða.

Leikmenn Tottenham eru nú með aukna von um að komast í keppnina. Á morgun mætast Tottenham og Manchester City í slag sem er ekki síður mikilvægur fyrir Man City, sem þarf sigur til að komast upp fyrir Arsenal og í bílstjórasætið um titilinn.
Athugasemdir
banner