Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   mán 13. maí 2024 20:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Var ósáttur með sjálfan sig og svaraði með þrennu gegn gömlu félögunum
Lengjudeildin
Fyrsta þrennan á ferlinum.
Fyrsta þrennan á ferlinum.
Mynd: Fótbolti.net
Dalvíkingurinn Heiðar Helguson lék 55 landsleiki og rúman áratug sem atvinnumaður.
Dalvíkingurinn Heiðar Helguson lék 55 landsleiki og rúman áratug sem atvinnumaður.
Mynd: Getty Images
Felix átti stoðsendinguna á Oliver í öðru markinu gegn Þrótti.
Felix átti stoðsendinguna á Oliver í öðru markinu gegn Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með ÍBV í fyrra.
Í leik með ÍBV í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Heiðarsson skoraði á föstudag sína fyrstu þrennu á ferlinum, skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV gegn sínum fyrrum félögum í Þrótti og átti með því stóran þátt í því að ÍBV fékk þrjú stig út úr leiknum.

Oliver var valinn besti leikmaður 2. umferðar í Lengjudeildinni. Fótbolti.net ræddi við Oliver í dag um ÍBV og lífið í Vestmannaeyjum.

Lestu um leikinn: ÍBV 4 -  2 Þróttur R.

ÍBV féll úr Bestu deildinni síðasta haust og stefnan er sett á að komast strax aftur upp.

„Ég var ekkert að hugsa um að færa mig um set eftir síðasta tímabil, datt ekkert í hug að fara. Mig langaði bara að spila fótbolta og hafa gaman af því. Ástæðan fyrir því að ég kom til Eyja var sú að mig langaði að spila flesta leikina á tímabilinu. Hjá FH sá ég ekki fyrir að ég yrði byrjunarliðsmaður. Mig langaði bara að spila fótbolta og hafa gaman, ég sá það gerast þegar ég fékk tækifærið á að koma hingað. Mér gekk ekki jafn vel og ég ætlaði mér í fyrra, hefði viljað skora fleiri mörk og halda liðinu uppi, en það er ekki hægt að svekkja sig á því hvað gerðist í fyrra. Málið er bara að njóta þess að spila núna."

„Ég hef alltaf verið í liðum sem eru þannig séð að berjast fyrir lífi sínu. Ég held að það hæsta sem ég hef verið í töflunni sé 6. sætið á fyrsta árinu mínu með FH. Það var fallbarátta 2022 með FH og svo aftur með ÍBV í fyrra. Mér líst vel á það núna að vera í liði sem er vonandi að fara vinna flesta leikina sína og hafa gaman af því að vinna,"
sagði Oliver.

„Við erum með næg gæði í liðinu til þess að fara upp. Ég skil ekki alveg hvað gekk á í fyrsta leik. Það er bara búið og gleymt núna og við svöruðum fyrir okkur í síðasta leik með alvöru baráttusigri."

Sá fyrsti í fjölskyldunni til að tapa á Dalvík
ÍBV tapaði gegn Dalvík/Reyni í fyrsta leik á Dalvík. Oliver er sonur Heiðars Helgusonar sem hóf sinn feril á Dalvík.

„Pabbi er frá Dalvík, langamma mín býr þar og ég á fullt af frændfólki sem býr þar. Ég hafði spilað einu sinni áður þarna, fór með FH og við töpuðum á móti KA. Pabbi sagði við mig eftir þann leik að ég væri fyrstur í fjölskyldunni til að tapa á Dalvík. Ef ég held áfram þessu gengi þá verð ég áfram sá eini sem hefur ekki unnið á Dalvík. Vonandi breyti ég því næst."

Svaraði með fyrstu þrennunni á ferlinum
Oliver hóf meistaraflokksferilinn hjá Þrótti og þekkir því vel til félagsins.

„Ég vildi sýna fólki í þessum leik að þetta var ekki ÍBV liðið sem hefði spilað leikinn á undan. Ég var kannski ekki sá eini sem átti slæman leik þar en ég var ekki nógu ánægður með frammistöðuna mína á Dalvík og vildi sýna bæði liðsfélögum og Eyjafólki að við erum ekki að fara sýna svona frammistöðu aftur. Ég vildi sýna hvað ég gæti gert inni á vellinum."

„Ég get ekki kvartað yfir frammistöðunni. Þetta var örugglega skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað, allavega frá því ég kom til Eyja. Það var smá síðan að við tókum alvöru stemningu með inni í leikinn, það var vöntun á því en loksins fundum við hana aftur."

„Þetta var fyrsta þrennan í meistaraflokksbolta. Ég skoraði þrennu í 3. flokki held ég. Þannig þetta var mjög sætt, sérstaklega á móti gömlu félögunum."

„Það eru nokkrir ennþá í Þrótti sem ég spilaði með áður en ég fór í FH. Ég var aðeins að kasta á þá eftir leik, þeir tóku ekki vel á móti því,"
sagði Oliver á léttu nótunum. „Svo þekki ég náttúrulega líka til Venna (Sigurvins Ólafssonar þjálfara Þróttar), var með honum í FH. Hann var ekki sáttur með mig."

„Annað markið er uppáhaldsmarkið úr leiknum. Þetta var svolítið þröngt færi og ég skil ekki ennþá hvernig Felix náði að kasta boltanum svona langt. Hann var með boltann á okkar vallarhelmingi en nær einhvern veginn að kasta boltanum í gegn á mig."


Yrði sætast að fara beint upp
Hvernig líst Oliver á framhaldið? Eru Eyjamenn að horfa í möguleikann á því að vinna deildina eða er stefnt á úrslitakeppnissæti og unnið út frá því?

„Okkur langar að klára þetta alveg og þurfa ekki að pæla í þessu umspili. Þannig hugsa ég þetta allavega. Það er erfitt að sjá þetta núna, hvernig þetta mun spilast. Maður þarf að taka hvern leik fyrir sig. Ef við vinnum ekki deildina þá sé ég okkur alveg fara í gegnum umspilið, við náum alltaf allavega umspilssæti, en það væri sætast að þurfa ekki að pæla í þessu umspili - fara bara beint upp," sagði Oliver að lokum.
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Fjölnir 7 5 2 0 14 - 7 +7 17
2.    Njarðvík 7 5 1 1 16 - 6 +10 16
3.    Afturelding 7 3 2 2 11 - 13 -2 11
4.    ÍBV 7 2 4 1 13 - 10 +3 10
5.    Grótta 7 2 4 1 11 - 12 -1 10
6.    Keflavík 7 2 3 2 12 - 6 +6 9
7.    Grindavík 6 1 4 1 11 - 11 0 7
8.    Dalvík/Reynir 7 1 4 2 9 - 11 -2 7
9.    Þór 6 1 3 2 8 - 11 -3 6
10.    ÍR 7 1 3 3 6 - 14 -8 6
11.    Þróttur R. 7 1 2 4 11 - 12 -1 5
12.    Leiknir R. 7 1 0 6 7 - 16 -9 3
Athugasemdir
banner
banner
banner