Frank Lampard þjálfari Coventry City var sár eftir að lærisveinar hans voru slegnir úr umspili Championship deildarinnar í kvöld.
Coventry og Sunderland áttust við í gríðarlega jöfnum og spennandi baráttuleikjum, sem einkenndust af því að Coventry hélt boltanum vel innan liðsins á meðan Sunderland varðist og beitti skyndisóknum.
Sunderland sigraði viðureignina með skallamarki eftir hornspyrnu á 122. mínútu. Það reyndist síðasta snertingin á boltanum í undanúrslitunum.
„Í fyrsta lagi þá vil ég óska Sunderland til hamingju með að komast í úrslitaleikinn," sagði Lampard að leikslokum. „Ég er svo stoltur af mínum mönnum fyrir frammistöðuna.
„Allir sem horfðu á leikina vita hvernig þetta atvikaðist. Við vorum miklu betra liðið á heimavelli, gerðum mistök og þeir skoruðu. Það var svipað í kvöld, við stjórnuðum ferðinni stærsta hluta leiksins. Við sóttum án afláts, sérstaklega í síðari hálfleik, og strákarnir lögðu allt í sölurnar. Þeir hafa verið stórkostlegir á seinni hluta tímabilsins. Við vorum í 17. sæti í deildinni í desember og komumst alla leið í umspilið."
Lampard tók við Coventry í lok nóvember þegar liðið var skammt fyrir ofan fallsvæðið.
„Strákarnir eiga ekki skilið að detta út á þessum tímapunkti. Við stjórnuðum þessum leikjum og það er sárt að tapa.
„Við erum ekki bitrir og óskum Sunderland til hamingju, en við vorum betra liðið yfir þessa tvo fótboltaleiki og þess vegna geta þeir prísað sig sæla að vera á leiðinni á Wembley."
Athugasemdir