Höjlund færist nær Milan - Ramsey á leið til Newcastle - Man City í viðræðum um Donnarumma
   mið 13. ágúst 2025 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Magnús Þór spáir í 17. umferð Lengjudeildarinnar
Lengjudeildin
Magnús Þór Jónsson.
Magnús Þór Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Róbert Quental.
Róbert Quental.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skorar Jón Daði sitt fyrsta mark?
Skorar Jón Daði sitt fyrsta mark?
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
ÍR heimsækir Þrótt.
ÍR heimsækir Þrótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Amin Cosic, leikmaður KR, var með tvo rétta þegar hann spáði í síðustu umferð Lengjudeildarinnar. Í kvöld hefst 17. umferðin og tók Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, að sér það verkefni að spá í leikina. Magnús er mikill fótboltaaðdáandi, stuðningsmaður ÍR og Liverpool.

Leiknir R. 2 - 1 Fylkir (18:00 í kvöld)
Baráttan um Elliðárdalinn sem er auðvitað perla Reykjavíkur. Eins mikill sex stiga leikur í fallbaráttunni og hægt er að hafa. Tveir reynsluboltar við stjórnvölinn hjá liðunum sem munu þurfa að fara djúpt í taktíkbækurnar til að koma í veg fyrir að liðin verði ekki í 2.deildinni næsta ár. Leiknismenn þekkja þennan slag betur og það virðist vera rosalega erfitt hjá Fylkismönnum að klára leiki, vantar upp á afgerandi þætti varnar- og sóknarlega þó að spilamennskan sé fín. Þetta verður drama, Quental setur Breiðholtssleggju í blálokin!

Völsungur 1 - 2 Þór (18:00 í kvöld)
Norðurlandsslagur tveggja liða sem spila með hjartanu. Það hefur glatt norðlendingsanga hjartans að sjá Völsungana í sumar, var svo sannarlega á því að þeim myndi reynast sumarið erfitt en menn í grænu hafa verið ótrúlega samstilltir og þjálfarinn veit nákvæmlega hvað hann vill gera. Þórsararnir hafa verið á siglingu, hjónabandið þeirra við Sigga Höskulds var alltaf að fara að virka, DNA-ið það sama, berjast og deyja fyrir klúbbinn er eitthvað sem er alvöru vörumerki þeirra hvítrauðu úr Þorpinu og eiginleikarnir sem Siggi kallar eftir, vinnusemi og ákefð eru alltaf að verða ljósari. Viðurkenni það hér með að draumur minn væri að Þór og ÍR færu saman upp úr þessari deild og til að svo megi verða þurfa Þórsarar að vinna þennan naglbít!

Keflavík 2 - 0 Grindavík (18:00 í kvöld)
Hér kannski sannast að spámannshausinn á mér virkar ekki alltaf. Ég var algerlega á því að Keflavík færi örugglega upp úr þessari deild en staðan er einfaldlega sú að þeir þurfa sigur í nágrannaslagnum á Suðurnesjum til að slíta sig endanlega frá fallslag og eygja von um playoffs. Á sama hátt verður að skoða sumarið hjá Grindavík út frá þeirri fordæmalausu stöðu sem samfélagið þar er í, ég held að menn þar á bæ sætti sig við það vera áfram Lengjulið á næsta ári og sigurinn í síðustu umferð létti ákveðinni pressu af þeim.

Selfoss 2 - 2 HK (18:00 í kvöld)
Selfoss hafa verið í töluverðu basli á heimavelli í sumar, 7 stig í 7 leikjum er alls ekki viðunandi árangur og verður að batna ef að þeir ætla að halda sætinu í deildinni. Maður veit ekki alveg hvaða HK lið mætir til leiks hvert sinn, þeir hafa unnið leiki örugglega sem maður taldi þá verða í basli með og svo tapa leikjum sem maður var nokkuð viss um að þeir ynnu. Ég hef fulla trú á því að það verði býsna margir í stúkunni á JÁVERK-vellinum þar sem væntanlega ákveðinn Jón Daði Böðvarsson mun spila einhverjar mínútur á Selfossvelli aftur eftir töluverðan tíma. Kristalskúlan mín segir að hann jafni með skalla í uppbótartíma!

Fjölnir 2 - 2 Njarðvík (18:30 í kvöld)
Njarðvík hafa einfaldlega verið frábærir í sumar, vel þjálfað lið sem er rútínerað og ólseigt. Það er alvöru árangur að vera kominn til 13.ágúst inn í deildina án þess að hafa tapað leik, fengið á sig fæst mörk og skorað flest. Þeir eru þó jafnteflispésar og þegar við skoðum það að Grafarvogspiltar hafa gert jafntefli í þremur síðustu leikjum er þetta nokkuð skýrt. Njarðvík er núna á þeim stað að önnur lið elta þá en þeir ekki í því hlutverki. Það er annað dýr að eiga við og Fjölnismenn sýndu það í Breiðholtinu síðast að þar á bæ eru menn ákveðnir í að halda sætinu. Þarf ekki að koma neinum á óvart að Árni Steinn setur eitt fyrir þá og leggur annað upp. Svo munu St.Mirren klára kaupin á honum að tímabili loknu!

Þróttur R. 1 - 2 ÍR (19:15 í kvöld)
Hér er auðvitað á ferðinni sá leikur sem ég hef mestan áhuga á, enda verð ég í stúkunni með ÍR-húfuna og trefilinn. Á síðustu öld var þetta erkifjendaslagurinn sem við ÍR-ingar horfðum á. Þessi lið voru samstíga um langt skeið í deildunum og margir epískir bardagar sem þá áttu sér stað. Bæði lið eru í fínum málum þetta sumarið og munu gera tilkall til sætis á meðal þeirra bestu á næsta ári sem væri frábær árangur eftir dýfur beggja klúbba síðustu ár. Þróttur er á þeim skrýtna stað að hafa fengið fleiri stig á útivelli en heimavelli á meðan að ÍR hafa safnað stigum nokkuð jafnt og þétt heima og úti. Heilinn segir að hér verði ákveðin bræðrabylta og jafntefli en við munum sjá Bergvin setja eitt iðnaðarmark í lok leiksins eftir stoðsendingu frá Gils og sjá til þess að Öskubuskuævintýrið í 109 verði áfram á fullri ferð!

Fyrri spámenn:
Hrannar Björn (5 réttir)
Hrafnkell Freyr (4 réttir)
Júlíus Mar (4 réttir)
Tómas Bent (3 réttir)
Adam Páls (3 réttir)
Elmar Atli (3 réttir)
Bjarki Björn (3 réttir)
Amin Cosic (2 réttir)
Atli Þór (2 réttir)
Arnar Laufdal (2 réttir)
Ásgeir Marteins (2 réttir)
Sævar Atli (2 réttir)
Viktor Freyr (1 réttur)
Guðjón Pétur (1 réttur)
Oliver Heiðars (1 réttur)
Elmar Kári (1 réttur)

Hér fyrir neðan má sjá stöðuna í deildinni eins og hún er núna.
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Njarðvík 16 9 7 0 38 - 15 +23 34
2.    ÍR 16 9 6 1 30 - 15 +15 33
3.    Þór 16 9 3 4 36 - 23 +13 30
4.    HK 16 9 3 4 29 - 18 +11 30
5.    Þróttur R. 16 8 5 3 30 - 25 +5 29
6.    Keflavík 16 7 4 5 34 - 27 +7 25
7.    Völsungur 16 5 4 7 27 - 33 -6 19
8.    Grindavík 16 5 2 9 32 - 44 -12 17
9.    Selfoss 16 4 1 11 16 - 32 -16 13
10.    Fjölnir 16 2 6 8 25 - 39 -14 12
11.    Fylkir 16 2 5 9 21 - 28 -7 11
12.    Leiknir R. 16 2 4 10 15 - 34 -19 10
Athugasemdir
banner
banner