banner
   þri 14. janúar 2020 18:25
Ívan Guðjón Baldursson
Sky: Söluákvæði í samningi Haaland
Mynd: Getty Images
Norska ungstirnið Erling Braut Haaland gekk í raðir Borussia Dortmund fyrr í janúar og greinir Sky í Þýskalandi frá því að hann sé með söluákvæði í samningi sínum.

Þessar fregnir koma á óvart enda er það gegn stefnu félagsins að hafa slík ákvæði í samningum leikmanna.

Mikil barátta var um að tryggja sér þjónustu Haaland í janúar og hann því í mjög góðri samningsstöðu. Vert er að taka fram að Haaland kostaði aðeins 20 milljónir evra vegna ákvæðis í samningi hans við Salzburg.

Upphæðin á ákvæðinu sem samið var um er óljós en þýskir fréttamenn reikna með að hún sé ekki undir 50 milljónum evra.

Haaland, fæddur 21. júlí 2000, skoraði 16 mörk og lagði 6 upp í 14 leikjum í austurrísku úrvalsdeildinni í haust. Þá skoraði hann 8 mörk í 6 leikjum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Dortmund er í fjórða sæti þýsku deildarinnar sem stendur, sjö stigum eftir toppliði RB Leipzig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner