Emilio Nsue gerði magnað mót þegar Miðbaugs-Gínea mætti til leiks í Afríkukeppnina í janúar og komst óvænt upp úr dauðariðlinum, sem innihélt bæði Nígeríu og Fílabeinsströndina - þjóðirnar sem mættust í úrslitaleiknum.
Nsue var stjarna Miðbaugs-Gíneu á mótinu þar sem hann skoraði fimm mörk í fjórum leikjum, þrennu setti hann í 4-2 sigri gegn Gíneu-Bissá og tvennu í sögulegum 4-0 sigri gegn Fílabeinsströndinni. Hann reyndist markahæsti leikmaður mótsins og fékk afhendan gullskó fyrir vikið.
Hann gæti þó verið búinn að spila sinn síðasta landsleik eftir að stjórn knattspyrnusambandsins í Miðbaugs-Gíneu setti hann í ótímabundið agabann.
Hinn 34 ára gamli Nsue, sem hefur meðal annars leikið fyrir Birmingham og Middlesbrough á ferlinum, er sagður hafa gerst sekur um ýmis agabrot á meðan á Afríkukeppninni stóð og hefur þess vegna verið settur í agabann ásamt miðjumanninum Iban Salvador.
Salvador er sagður hafa lent í slagsmálum eftir að Miðbaugs-Gínea var slegin úr leik og þurfti lögregla að skera sig í leikinn.
Nsue er markahæsti leikmaður í sögu Miðbaugs-Gíneu með 22 mörk í 43 landsleikjum.
Hann var lykilmaður upp yngri landslið Spánar en tókst aldrei að taka stökkið upp í A-landsliðið þar.
Athugasemdir