þri 14. maí 2019 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Guðjón Pétur fagnar ef hann skorar gegn KA
Guðjón Pétur.
Guðjón Pétur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA tekur á móti Breiðabliki í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar á Greifavellinum annað kvöld.

Guðjón Pétur Lýðsson miðjumaður Breiðabliks mætir þá sínum gömlu félögum en hann gekk í raðir KA eftir síðasta tímabil en fékk sig síðan lausan frá Akureyrarliðinu stuttu fyrir mót og gekk í raðir Breiðabliks.

Gaman að takast á við KA-liðið
„Það verður gaman að hitta strákana. Ég á marga vini þarna fyrir norðan og það verður gaman að takast aðeins á við þá á vellinum," sagði Guðjón Pétur sem segist ekki gera sér almennilega grein fyrir því við hvernig leik má búast.

„Þetta verður örugglega baráttuleikur og KA-menn selja sig líklega mjög dýrt. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta verði hörkuleikur."

Hann segir það óþarfi að vera hjálpa Ágústi Gylfasyni þjálfara Breiðabliks fyrir leikinn.

„Ég held að þetta sé allt frekar auðséð bæði hvernig við spilum og þeir. Ég veit ekki hvað ég ætti að segja við Gústa varðandi KA-liðið. Nema kannski bara að KA er með flott lið og með góða leikmenn. Við þurfum að eiga toppleik til að eiga séns á móti þeim."

Verða sterkari og sterkari
En mun Guðjón Pétur fagna ef hann skorar í leiknum?

„Ég myndi allavegana gera það mjög látlaust og ekki vera með neina stæla. Það verður þá allavegana mjög kurteist fagn. Það er alltaf gaman að skora mörk, ef ég skora þá verður það bara þannig. Ég er ekkert að hugsa um það, ég er bara að spila fyrir liðið og ef liðið vinnur þá verð ég glaður," sagði Guðjón sem býst ekki við öðru en góðum móttökum þegar hann mætir norður.

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að móttökurnar verði góðar. Ef það verður eitthvað öðruvísi þá verður það bara þannig og ég tek því þá bara. Ég efast hinsvegar um annað en að ég fái bara góðar móttökur á morgun," sagði Guðjón Pétur sem er ánægður með spilamennsku Blikana heilt yfir í sumar.

„Fyrir utan kannski þennan leik gegn HK. Ég held að það verði stígandi í þessu hjá okkur og við verðum enn sterkari þegar líður á sumarið. Þetta er enn bara rétt að byrja og liðin eru að stilla saman strengi," sagði GPL sem segir deildina vera mjög spennandi í ár.

„Það eru mörg svipað góð lið og ég sé ekkert lið stinga af. Þetta verður spennandi," sagði Guðjón Pétur að lokum.

Leikir 4. umferðar:
HK - ÍBV (18:45 á morgun)
KA - Breiðablik (19:15 á morgun)
ÍA - FH (19:15 á morgun)
Víkingur R. - Stjarnan (19:15 á morgun)
Fylkir - Valur (19:15 á fimmtudag)
Grindavík - KR (19:15 á fimmtudag)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner