Man Utd ætlar að selja Antony - Zirkzee til Arsenal?
   fös 14. júlí 2023 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ævintýrið á Möltu: Áhugaverð tölfræði, stjarna fæddist og stórt hjarta
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Icelandair
Frá æfingu á Möltu.
Frá æfingu á Möltu.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eggert Aron Guðmundsson var besti maður Íslands á mótinu.
Eggert Aron Guðmundsson var besti maður Íslands á mótinu.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Orri Steinn var markahæstur í undankeppninni en fékk ekki leyfi til að taka þátt á lokamótinu.
Orri Steinn var markahæstur í undankeppninni en fékk ekki leyfi til að taka þátt á lokamótinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Kristian Nökkvi Hlynsson fékk ekki heldur að taka þátt.
Kristian Nökkvi Hlynsson fékk ekki heldur að taka þátt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu U19 liðsins á Möltu.
Frá æfingu U19 liðsins á Möltu.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liðsheildin sem strákarnir mynduðu var til fyrirmyndar.
Liðsheildin sem strákarnir mynduðu var til fyrirmyndar.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Það var stuð og stemning á Möltu í gær þegar undanúrslitin á Evrópumóti U19 landsliða karla fóru fram.

Í fyrri undanúrslitaleiknum mættust Noregur og Portúgal. Sá leikur fór fram á Tony Bezzina leikvanginum þar sem íslenska U19 liðið spilaði tvo leiki í riðlakeppninni. Báðir þeir leikir enduðu með jafntefli, fyrst gegn Noregi og svo gegn Grikklandi.

Til að gera langa sögu stutta þá niðurlægði Portúgal mjög svo slakt lið Noregs, 5-0. Markvörður Noregs byrjaði á því eftir fjórar mínútur að gefa mark og í kjölfarið gáfu þeir klaufalega vítaspyrnu. Portúgal þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum en vann samt sem áður stóran sigur.

Undirritaður hugsaði til þess á meðan leiknum stóð í gær hvað hefði gerst ef íslenska liðið hefði spilað þennan leik í staðinn fyrir Noreg. Það er ómögulegt að segja, enda gekk það ekki eftir hjá okkar strákum að komast áfram upp úr riðlinum.

Áttu skilið að fara áfram
Þeir voru hins vegar nálægt því og ef horft er á xG tölfræðina, þá áttu þeir skilið að fara áfram. ‘Expected points’ er sem sagt tölfræði sem mælir líkurnar á því að lið vinni leik miðað við möguleikana sem liðið skapaði og fékk á sig (xG) í þeim tiltekna leik. Þessi tölfræði gefur yfirleitt góða vísbendingu um það hversu mörg stig lið eiga skilið að vera með.

Eftir riðlakeppnina þá voru okkar strákar með 3,9 í 'expected points' á meðan Noregur var bara með 3,3. Íslenska liðið var sterkari aðilinn í leiknum gegn Noregi í riðlinum og einnig gegn Grikklandi, en jafntefli var niðurstaðan í báðum þeim leikjum. Það vantaði upp á sóknargæðin á síðasta þriðjungi og það var dýrt, það vantaði Orra Stein Óskarsson til að reka síðasta smiðshöggið. Við fengum stöðurnar til að vinna Noreg og Grikkland og það var bara lélegt að vinna ekki þá leiki.Það var súrt. Og það var svekkjandi að markahæsti leikmaður undankeppninnar, Orri Steinn, hafi ekki verið með liðinu þar sem þetta mót er ekki í landsliðsglugga. Og það var svekkjandi að Daníel Tristan Guðjohnsen, Hilmir Rafn Mikaelsson og Kristian Nökkvi Hlynsson gátu ekki verið með. En þrátt fyrir þessi skakkaföll þá spilaði íslenska liðið nægilega vel - tölfræðin segir það - til að komast upp úr riðlinum. Strákarnir settu hausinn upp og gerðu það sem þeir gátu, en á endanum var það ekki nóg.

Stjarna fæddist
Í leiknum á móti Noregi má segja að stjarna hafi fæðst: Eggert Aron Guðmundsson. Hann skoraði besta mark mótsins í þeim leik og var honum líkt við bæði Lionel Messi og Diego Maradona af liðsfélögum sínum í Stjörnunni. Argentínskur kollegi minn vildi þó meina að hann væri líkari Carlos Tevez. Eggert tók við keflinu á þessu móti og var hann besti leikmaður Íslands. Eggert hefur lengi spilað í meistaraflokki, en hann sýndi það á þessu móti að hann getur svo sannarlega orðið A-landsliðsmaður og farið afskaplega langt á sínum ferli. Það voru njósnarar á hverju strái á leikjum Íslands og það kæmi verulega á óvart ef Stjarnan fær ekki stórt tilboð í leikmanninn áður en sumarið klárast.

Aðrir leikmenn sýndu það líka á þessu móti að þeir geta orðið A-landsliðsmenn framtíðarinnar. Markvörðurinn Lúkas Petersson er virkilega spennandi og hefur alla burði til að vera markvörður í fremstu röð, Logi Hrafn Róbertsson getur bæði náð langt sem miðvörður og miðjumaður og Hlynur Freyr Karlsson er leiðtogi sem getur spilað nánast hvar sem er. Það er hægt að nefna enn fleiri, Daníel Frey Kristjánsson til dæmis. Hann kom mér á óvart með frammistöðu sinni eftir að hafa verið á bekknum í fyrsta leik. Hann er vinstri bakvörður sem gaman verður að fylgjast með.

Sýndu stórt hjarta og lærðu mikið
En svona er þetta. Það er áhugavert að pæla í því hvort við hefðum getað gert betur en Noregur í gær, en það þýðir í raun ekkert að pæla í því. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með okkar strákum hérna út á Möltu og þeim liðsanda sem þeir mynduðu. Þeir sýndu gríðarlegt hjarta og maður skynjaði það hversu miklu máli það skipti fyrir þá að spila fyrir þjóð sína. Þeir voru allir sem einn búnir að læra þjóðsönginn og sungu hann hástöfum fyrir hvern einasta leik ásamt gífurlega flottum stuðningsmönnum sem voru þeir bestu á mótinu.

„Það er nú þegar 1-0 fyrir ykkur," sagði norskur kollegi minn við mig áður en leikur Íslands og Noregs hófst í riðlinum. Allir Íslendingar á vellinum - liðið þar með talið - voru þá búin að öskra þjóðsönginn fyrir leik og það var tekið eftir því.

Við erum lítil þjóð en við erum stolt þjóð. Maður fann svo sannarlega fyrir miklu þjóðarstolti hjá strákunum og stuðningsmönnunum í gegnum þetta mót. Það var virkilega gaman að sjá það.

Þessir strákar eru margir núna að fara að stíga upp í U21 landsliðið eftir dvölina á Möltu og svo kannski upp í A-landsliðið í framtíðinni. Að hafa farið á þetta mót og upplifa það kemur til með að hjálpa íslenskum fótbolta fyrir framtíðina. Þegar maður talar við leikmenn og starfsfólk liðsins þá finnur maður að þessir dagar á Möltu voru frábær reynsla fyrir þá sem þeir þurfa núna að taka með sér og byggja á. Við vorum á meðal átta bestu þjóða Evrópu í U19 aldursflokki sem er eitt og sér magnað afrek. Við vorum nálægt því að komast í undanúrslit sem er enn flottara afrek sem fyllir mann bjartsýni fyrir framtíðina, og við getum verið stolt af þessum árangri.

Næst á dagskrá er Evrópumót U19 landsliða kvenna þar sem Ísland verður einnig á meðal þátttökuþjóða. Þar munu stelpurnar fá dýrmæta reynslu fyrir framtíðina. Ísland er aðeins ein af tveimur þjóðum sem á lið á báðum mótum í sumar, en hin þjóðin er Spánn. Það eru aðeins átta þjóðir sem komast á hvert mót sem segir rosalega mikið um hversu stórt afrek þetta er. Ef A-landsliðin okkar komast á stórmót í framtíðinni þá munum við mögulega hugsa til baka til þessara daga á Möltu og í Belgíu í júlí 2023.

Úrslitaleikur á Evrópumóti U19 landsliða karla er annað kvöld, en þar mætast Ítalía og Portúgal.
Athugasemdir
banner
banner
banner