Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 14. ágúst 2022 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag: Við þurfum betri leikmenn
Mynd: Getty Images

Erik ten Hag var ósáttur eftir að Manchester United var niðurlægt af Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann segir að liðið þurfi betri leikmenn til að vera samkeppnishæft.


Brentford vann 4-0 eftir að hafa skorað öll fjögur mörk leiksins í fyrri hálfleik. Fyrstu tvö mörkin komu eftir mistök hjá David de Gea en Rauðu djöflarnir sköpuðu sér ekki mikið og virkuðu afar bitlausir í sínum aðgerðum.

„Við erum í erfiðu ferli en við verðum að gera betur heldur en þetta. Við bjuggumst við að byrja betur. Við þurfum nýja leikmenn, við þurfum gæðamikla leikmenn. Við erum að vinna í því og munum gera allt í okkar valdi til að sannfæra þá um að koma hingað," sagði Ten Hag meðal annars að leikslokum.

Ten Hag gerði þrjár skiptingar í hálfleik þar sem Lisandro Martinez, Luke Shaw og Fred voru teknir útaf. Þeir eru lágvaxnir og réðu ekki við stóra leikmenn Brentford.

„Ég skipti þremur út en ég hefði getað skipt þeim öllum. Við vildum setja ferska orku í okkar leik og það er engin sérstök ástæða fyrir því að ég skipti þessum þremur frekar en einhverjum öðrum. Við spiluðum barnalega í dag, leikmenn tóku mikið af röngum ákvörðunum.

„Við vorum með leikplan en við hentum því í ruslið með mistökum. Við töpuðum ekki útaf taktískum ákvörðunum heldur útaf mistökum. Strákarnir fylgdu leiðbeiningunum frá mér en tóku rangar ákvarðanir. Svona er fótboltinn, ef maður gerir mistök þá er manni refsað."


Athugasemdir
banner