Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 14. september 2022 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tækifærið geggjað en ákvörðunin mjög erfið - „Leið eins og ég væri aðeins að svíkja liðið"
Eg var ekkert viss um að KA myndi segja já
Eg var ekkert viss um að KA myndi segja já
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þá kom í ljós að ég væri á leið í flugi til Belgíu, á leið í læknisskoðun og að skrifa undir samning
Þá kom í ljós að ég væri á leið í flugi til Belgíu, á leið í læknisskoðun og að skrifa undir samning
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hreinlega af því ég er mjög skotinn í fótboltanum sem spilaður er hér, bæði hollenska úrvalsdeildarboltanum og belgíska
Hreinlega af því ég er mjög skotinn í fótboltanum sem spilaður er hér, bæði hollenska úrvalsdeildarboltanum og belgíska
Mynd: Beerschot
 Því meira sem ég kynnti mér liðið því spenntari varð ég.
Því meira sem ég kynnti mér liðið því spenntari varð ég.
Mynd: Beerschot
„Ég vissi ekki af neinum áhuga fyrr en eftir leik á móti FH í bikarnum, daginn eftir fæ ég hringingu frá umboðsmanninum að Beerschot ætli að leggja inn tilboð í mig á laugardeginum. Þá var það bara spurningin hvort ég hefði áhuga á því að fara til félagsins eða hvort þeir ættu að leita annars staðar," sagði sóknarmaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson við Fótbolta.net í Innkastinu.

Nökkvi, sem er 23 ára Dalvíkingur, var seldur frá KA til belgíska félagsins Beerschot fyrir rúmri viku síðan. Tæpar tvær vikur eru frá leiknum gegn FH í bikarnum. Nökkvi, sem er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar, var efsti maður á blaði hjá Beerschot.

„Ég þurfti í raun að ákveða mig í síðasta lagi á laugardagskvöld hvort ég í alvörunni vildi taka þetta lengra." Félagsskiptaglugginn í Belgíu lokaði fyrir rúmri viku síðan.

„Ég fór í að skoða þetta lið og kynna mér það aðeins betur. Ég sá að þeir voru í efstu deild í fyrra, féllu niður í næstefstu deild. Ég talaði við menn sem hafa verið í Belgíu. Því meira sem ég kynnti mér liðið því spenntari varð ég. Þetta er stórt lið í Belgíu sem ætlar sér beint aftur upp í efstu deild."

„Þeir eru komnir með erlenda fjárfesta sem heitir United Group og er t.d. í samstarfi við Sheffield United. Það var mjög margt sem mér fannst spennandi við þetta. Þeir eru að fá mann inn sem framherja númer eitt, sýna manni svona mikinn áhuga - það auðveldar ákvörðunina."


Fannst mjög erfitt að hugsa um sjálfan sig
Gat Nökkvi gengið út frá því að KA myndi samþykkja tilboðið frá belgíska félaginu?

„Nei, ég var ekkert viss um að KA myndi segja já. Þetta var mjög erfið ákvörðun fyrir mig þar sem KA er í toppbaráttu. Eftir að ég talaði við fjölskyldu mína og alla í kringum mig þá verður maður stundum að hugsa um sjálfan sig. Mér fannst mjög erfitt að hugsa um sjálfan mig í þetta skiptið því mér leið eins og ég væri aðeins að svíkja liðið - af því KA gat ekki tekið mann inn eða neitt út af glugganum."

„Beerschot vildi fá svar frá mér sem fyrst til að sjá hvort þeir ættu að taka þetta lengra, svo þeir hefðu smá tíma til að ná samkomulagi við KA um kaupverð. Svo veit ég í raun ekkert fyrr en eftir leikinn gegn Fram á sunnudag. Þá fékk ég að vita að KA hefði samþykkt tilboð og ég væri á leið í læknisskoðun daginn eftir."

„Ég vissi að það væru viðræður í gangi en ég var að einbeita mér að leiknum. Ég sagði við Bjarka umboðsmann minn - og hann var mjög góður með það að láta mig ekki vita af neinu fyrr en eftir leik. Þá kom í ljós að ég væri á leið í flugi til Belgíu, á leið í læknisskoðun og að skrifa undir samning."


Hvernig var að fara í leikinn gegn Fram. Var truflandi að vita af þessum viðræðum?

„Ég reyndi að hugsa sem minnst um þetta en auðvitað hafði þetta einhver áhrif á hausinn. Mér fannst þetta ekki hafa einhver áhrif þannig en vissulega einhver kannski."

Skotinn í fótboltanum í Hollandi og Belgíu
Framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, kom inn á það í viðtali við Fótbolta.net fyrir rúmri viku síðan að hugur Nökkva hefði leitað til Hollands og Belgíu. Hvers vegna er það?

„Hreinlega af því ég er mjög skotinn í fótboltanum sem spilaður er hér, bæði hollenska úrvalsdeildarboltanum og belgíska. Ég held að hann henti mér mjög vel, út af hraðanum og öllu því. Mér finnst þetta mjög heillandi bolti sem er spilaður hérna. Fótboltamenningin í báðum löndum er eitthvað sem mér finnst mjög heillandi."

Vissi af áhuga frá nokkrum liðum
Sævar sagði þá að KA hefði farið í viðræður fyrr í sumar sem ekkert varð svo úr. Var Nökkvi meðvitaður um að það hefði verið í gangi?

„Það var áhugi frá þónokkrum liðum, en flest þeirra höfðu talað um möguleikann á að fá mig í janúar af því KA var búið að gefa það út. Það var spennandi líka. Það var ekki komið neitt konkrít tilboð frá þeim félögum, þau hefðu komið í janúar. Ég vissi af áhuga frá nokkrum liðum í ágúst en í raun ekkert konkrít. Svo vissi ég vissulega af áhuga Viking Stavanger sem kom í fjölmiðla."

Áttaði sig á því hversu geggjað tækifærið gæti orðið
Nökkvi ræddi við nokkra aðila áður en hann tók ákvörðun um að fara til Beerschot.

„Ég talaði við t.d. Sebastiaan Brebels sem þekkir mjög mikið til í Belgíu og boltann hérna. Ég talaði einnig við íslenska leikmenn sem hafa spilað í Belgíu og líka umboðsmanninn minn sem þekkir vel til í Belgíu. Þegar ég heyrði hvernig þeir töluðu um þennan klúbb, þetta klúbbur með risastóra sögu og er risastórt félag í Belgíu en lenti í því að verða gjaldþrota en er núna komið aftur með góða fjárfesti og er að komast á gott skrið og er með virkilega sterkt lið. Því meira sem ég kynnti mér liðið því meira áttaði ég mig á því hversu geggjað tækifæri þetta gæti orðið fyrir mig."

„Fyrstu dagana eftir að ég kom út áttaði ég mig á stærðinni á félaginu. Það var eitthvað sem maður áttaði sig kannski ekki á áður en ég fór út. Ég hafði ekki heyrt mikið um Beerschot."


Talsverður munur er á umgjörð hjá Beerschot og KA. „Það er allt önnur umgjörð. Það eru fjórir sjúkraþjálfarar á hverri æfingu og einn læknir, einn styrktarþjálfari, liðsstjóri, aðstoðarþjálfari, greinandi og aðalþjálfari. Svo eru tveir sem sjá um þvottinn og allt það, öll umgjörð er miklu stærri og meiri. Peningurinn hér og aðstaðan er allt önnur," sagði Nökkvi.

Viðtalið er talsvert lengra og má hlusta á það í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Viðtalið hefst eftir um 68 mínútur af þættinum.
Innkastið - Draumaumferð KA, glataðir Valsarar og Stjarnan í frjálsu falli
Athugasemdir
banner
banner
banner